Bööö!

Bööö!

Ég ætla að gera ofurlitla játningu. Ég er fimmtíu og átta ára gömul og ég elska hrekkjavöku. Ég elska stemmninguna, hrollinn, beinagrindur og blóðtauma, köngulær, kertaljós og útskorin grasker í haustkulinu. Mér finnst hrekkjavakan stórkostleg hátíð og fagna því af öllu hjarta að við skulum vera að læra að halda upp á hana. Ég hef verið í Bandaríkjunum að hausti og þeir kunna sannarlega að hrylla og trylla með skreytingum og búningum. Að vísu eru Vermontbúar þar sem ég þekki til, flestum afslappaðri og eru ekkert endilega að taka skrautið niður á milli hátíða þannig að sumstaðar er svona blanda af jólahrekkjaskrauti en það gerir það bara skemmtilegra. Yfirleitt drífa þeir sig þó fljótt eftir hrekkjavöku í undirbúning fyrir þakkargjörðarhátíðina sem fyrir þeim flestum er meiri fjölskylduhátíð en jólin og þannig er haustið vandlega stráð hátíðisdögum sem okkur vantar algjörlega hér á Íslandi.

 Að normalisera myrkrið

Hér á landi er ekki einn einasti opinber frídagur og engin hátíð frá Verslunarmannahelgi og fram í desember ef ég man rétt og því var sannarlega þörf fyrir hrekkjavökuna til að gera myrkrið svartara og drungann drungalegri.  Og já ég meina það sannarlega. Okkur veitir nefnilega ekkert af því að normalisera myrkrið og dauðann fyrir börnum og gera þessa hluti að einhverju sem er jafn eðlilegt að fagna og minnast rétt eins og birtunni og ljósinu.  Dauðinn á ekki að vera tabú og það á að vera gaman og jákvætt að fagna haustinu og hnignunni sem er jú bara hluti af hringrás náttúrunnar eins og vorið. Það er líka bara gaman og spennandi að slökkva ljósin og segja böö. Ég held að það dragi úr myrkfælni og draugahræðslu og kenni frekar að myrkrið er ekki hættulegt út af fyrir sig.  Í okkar vandlega upplýstu borgum og bæjum erum við eiginlega búin að gleyma því að til er svartamyrkur og án þessa myrkurs verður heldur ekkert ljós.

Hrekkjavakan ættuð frá Evrópu.

Ég blæs á þau rök að hrekkjavakan sé bandarískt fyrirbrigði þar sem uppruni hátíðarinnar er jú þangað kominn frá evrópskum innflytjendum. Á vísindavef Háskóla Íslands má finna eftirfarandi:

„Í mörgum evrópskum löndum, þar á meðal á Íslandi og hinum Norðurlöndunum auk keltneskra landa, var árinu skipt í tvær árstíðir fremur en fjórar, eða í vetur og sumar. Menn töldu tímann í vetrum og nóttum fremur en í árum og dögum. Veturinn, eins og nóttin, var talin koma fyrst; mánaðamót október og nóvember var því tími vetrarbyrjunar, og þar með nýárs. Þá tóku kuldinn og myrkrið við, jörðin sofnaði og dauðinn ríkti. Á Íslandi til forna var í lok október haldin hátíð sem kölluð var veturnætur og þá var haldið dísablót á Norðurlöndum (disting). Í norðurhluta Skotlands og á Írlandi er á þessum tíma enn haldin hátíð sem á gelísku heitir Samhain, hátíð hinna dauðu. Í seinni tíð hefur hún fengið heitið Hallowe’en.”

Þessi lýsing finnst mér algjörlega ómótstæðileg. Samkvæmt gömlu tímatali eigum við reyndar okkar fyrsta vetrardag en einhvernvegin hefur það ekki tíðkast að halda upp á þann dag, ekki í neinni líkingu við sumardaginn fyrsta.  Þó er þar að finna uppruna hrekkjavökunnar.

Kirkjan og hátíðisdagarnir

Þessari hátíð var reyndar síðar meir breytt af kaþólsku kirkjunni í allra heilagra messu en flestar kristnar hátíðir eiga reyndar uppruna sinn í einhverjum heiðnum sið.

Þær voru í upphafi ekki tengdar kirkjunni né kristni sérstaklega, heldur viðhaldið til að friðþægja almenning sem ekki vildu missa sínar föstu hátíðir og frí hver sem trúin eða tilefnið var. Smásaman var þó reynt að kristna þær með einum eða öðrum hætti.  Eða þetta er allavega hin sögulega skýring.

En hrekkjavakan hefur fengið að halda sínum uppruna og eðli í huga meginþorra almennings og persónulega finnst mér það afar ákjósanlegt. Hið dulræna á kannski ekki mjög upp á pallborðið hjá kirkjunar mönnum sem er undarlegt því að hvað er dularfyllra en dauðinn og upprisan?

Höldum í hrekkjavökuna

Ég vona sannarlega að á næstu árum muni verða barið dyra hjá mér á dimmu haustkvöldi og fyrir utan standi hópur af hauslausum hryggðarmyndum sem bjóði upp á „gott eða grikk”. Ég vona að uppvakningar og löngu dauðir menn ráfi um í hverfinu, þefi uppi hræddar kerlingar og karla og skjóti þeim verulegan skelk í bringu. Siðurinn er að ná rótfestu og ekkert nema gott um það að segja. Það kannski tekur svolítið af jólapressunni sem ríkir hér frá haustmánuðum og veitir jólunum vonandi einhverja samkeppni. Þá er kannski meiri von til þess að það verði gaman á jólunum í staðinn fyrir að þau verði hápunktur alltof langrar landlægrar auglýsingaherferðar og ávísun á vonbrigði.

Áfram hrekkjavaka!!


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó