Dúettinn Bóndi og Kerling úr Eyjafjarðarsveit gefur út sína fyrstu breiðskífu föstudaginn 15. mars, í formi geisladisks. Útgáfutónleikar fara fram samdægurs í Hömrum í Hofi á Akureyri og hefjast klukkan 20:00.
Dúettinn skipa hjónin Sigríður Hulda Arnardóttir söngkona og Brynjólfur Brynjólfsson gítarleikari, laga- og textasmiður. Þau hafa fram til þessa verið upptekin af ýmsu öðru en að senda frá sér sameiginlega frumsamda tónlist.
Þeim til fulltingis, bæði á plötunni og á tónleikunum, er úrval hljóðfæraleikara og söngvara af Eyjafjarðarsvæðinu. Breiðskífan telur níu heimasmíðuð lög og tónlistin er fjölbreytt. Þar má finna flest frá vínarvölsum og vögguvísum yfir í blús og gospel. Tveir glænýir kórar hafa verið stofnaðir í tilefni útgáfunnar, Gospelkór Eyfirðinga og Karlakórinn Glókollar.
Reiknað er með að þeir haldi starfsemi áfram um ókomna tíð. Tónlistinni verður veitt inn á helstu ljósvakamiðla á útgáfudaginn. Miða á tónleikana má finna á mak.is og tix.is og við inngang. Geisladiskurinn verður seldur á staðnum.
UMMÆLI