Ragga Rix, 13 ára Akureyringur, sem sigraði Rímnaflæði hefur hafið sölu á bol sem minnir á boðskap sigurlagsins um að óumbeðnar typpamyndir séu ekki í lagi.
Ragnheiður Inga Matthíasdóttir eða Ragga Rix eins og hún kallar sig, sigraði rappkeppnina Rímnaflæði nýlega með laginu Mætt til leiks.
Texti lagsins fjallar meðal annars um þann veruleika sem margar stelpur á hennar aldri lifa við, þ.e.a.s að strákar sendi þeim óumbeðnar typpamyndir. Bolurinn er áminning um að þetta sé ekki í lagi en á honum er lína úr laginu: Sorrý gaur, nenni ekki að sjá á þér typpið!.
„Það var stór áfangi fyrir mig að vinna Rímnaflæði. Ég lagði mikla vinnu í lagið og að undirbúa mig fyrir keppnina. Nú er keppninni lokið en mig langaði til að boðskapurinn í laginu myndi lifa aðeins lengur. Þannig kom hugmyndin að þessum bol. Svo er þetta bara illa nettur bolur“, segir Ragnheiður Inga.
Bolurinn fæst bæði í gráu og hvítu og er fáanlegur í Fornbókabúðinni Fróða á Akureyri og í vefversluninni: https://www.lifiderferdalag.is/product-page/sorry-gaur
UMMÆLI