NTC

Bókmenntahátíð haldin á Akureyri í fyrsta sinn

Mynd: mak.is.

Í fyrsta sinn á Akureyri verður haldin Bókmenntahátíð í Menningarhúsinu Hofi þriðjudaginn 5. september. Hátíðin er unnin í samstarfi við Bókmenntahátíðina í Reykjavík, Menningarfélag Akureyrar og Amtsbókasafnið og hefst degi áður hér fyrir norðan en Bókmenntahátíðin í Reykjavík. Tveir viðburðir verða í boði þennan dag þar sem rithöfundarnir Anne-Cathrine Riebnitzsky og Esmeralda Santiago verða í brennidepli.

Fyrri viðburðurinn ber heitið Höfundamót – höfundar, sögupersónur, lesendur og hefst kl. 11.30. Rithöfundarnir Anne-Cathrine Riebnitzsky (Stormurinn og stillan) og Esmeralda Santiago (Næstum fullorðin) lesa uppúr verkum sínum og tveir félagar úr akureyrskum bókaklúbbi segja frá sinni upplifun á lestri bókanna og vangaveltum sem urðu til við lesturinn og hafa tækifæri til að spyrja höfundana beint út í verkin. Áheyrendum út í sal gefst einnig kostur á að spyrja spurninga og taka þátt í umræðunum. Viðburðurinn fer fram á ensku og íslensku.

Maður á mann er seinni viðburður hátíðarinnar og hefst kl. 17. Þar fara þau Arnar Már Arngrímsson rithöfundur og Esemeralda Santiago á trúnó, en rauði þráðurinn í því eru konur, sjálfsmynd og flutningar. Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður fer á trúnó við Anne- Cathrine Riebnitzsky þar sem aðalumræðuefnið verður konur og stríð ásamt fjölskyldum í skáldskap. Auk þess munu þau Margrét H. Blöndal, Þórgunnur Oddsdóttir, Kristín Þóra Kjartansdóttir, Megas og Hlynur Hallsson lesa uppúr nýútgefnum verkum sínum úr ritröðinni Pastel. Ávarp flytja þær Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar og Stella Soffía Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík.

Viðburðurinn fer fram á ensku en upplestur höfunda Pastels er á íslensku.

Sambíó

UMMÆLI