Blóðberg opnar nýja verslun á Skipagötu

Blóðberg opnar nýja verslun á Skipagötu

Frá því í febrúar hefur ný verslun verið starfrækt á jarðhæð Skipagötu 12. Verslunin heitir Blóðberg og sérhæfir sig í sölu á sérvöldum íslenskum hönnunarvörum.

Fréttaritari kom þar við á dögunum og ræddi við Ernu Helgadóttur, eiganda Blóðberg, um reksturinn. Hún segir Akureyringa hafa tekið vel á móti sér. Hún hefur rekið verslunina Blóðberg á Seyðisfirði unfanfarin ár, en opnaði nú annað útibú hér á Akureyri á dögunum. Búðin hóf göngu sína einfaldlega inni í stofu hjá Ernu, þar sem hún þurfti að vinna heiman frá sér vegna veikinda sonar síns. Hún ætlaði bara að prófa reksturinn yfir eitt sumar en síðan þá hefur reksturinn aldeilis undið upp á sig. Nafnið Blóðberg varð fyrir valinu vegna þess að hún vildi nafn tengt náttúrunni og vísar jurtin blóðberg, sem hefur ýmsan lækningarmátt, til sonar hennar.

„Við höfum verið að fá mjög góð viðbrögð,“ segir Erna, „við teljum Blóðberg vera flotta viðbót í verslunarflóruna í bænum, með vinsælar íslenskar hönnunarvörur og alls kyns merki á leiðinni.“ Hún segir það eitt af markiðum sínum að hvetja fólk niður í bæ, því að það að versla á netinu jafnist ekki á við að mæta á staðinn og fá að snerta og máta vöruna. Hún býður alla Akureyringa velkomna til að koma við og fá sér kaffibolla, jafnvel þó þeir versli ekki neitt.

Erna flutti til Akureyrar í vetur en hefur síðan þá flakkað mikið á milli bæjanna tveggja til að sinna báðum verslununum. Þann dag sem fréttaritari náði tali af henni var hún einmitt á leið til Seyðisfjarðar strax eftir lokun til þess að elta skemmtiferðaskip sem var í höfn á Akureyri.

„Mér finnst ótrúlega gott að vera hér, þetta er dásamlegur bær,“ segir Erna um Akureyri. Hún segist hafa verið vöruð við því fyrir flutningana að það geti reynst erfitt að komast inn í samfélagið hér, en segist ekki hafa upplifað neitt slíkt, heldur hafi hún upplifað sig mjög velkomna.

Verslunin er opin frá 11 til 18 mánudaga til föstudaga en 12 til 16 á laugardögum. Erna segir þó að markmiðið sé að hafa opið alla daga yfir sumartímann. Frekari upplýsingar er hægt að finna á Facebook síðu Blóðbergs með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó