Framsókn

Blessaður sé snjórinn….

Inga Dagný Eydal skrifar:
sjókarl

…..sagði enginn, aldrei (nema hugsanlega skíðamenn og fólk með annarlegar hvatir)! Ég finn að með vaxandi aldri, vex óþol mitt fyrir þessu hvíta hlassi sem virðist á köflum finna sér hvíldarstað innan bæjarmarkanna, nákvæmlega þar og hvorki utan þeirra né innan. Endalausar pælingar um veðurhorfur og úrkomuspár einkenna líf mitt – verður fært, mun hlána, verður svell úr þessu, mun ég detta og rotast eða brjóta mig, hversu oft þarf ég að moka, þarf ég að færa bílinn fyrir mokstursvélarnar….og svo framvegis? Þetta eru sko margar spurningar fyrir eina konu.

Og svo skoða ég veðurspána íslensku, wunderground stöðina, norsku stöðina og svo nokkur öpp í símanum mínum,- ber þetta saman og bý til mína eigin líkindaspá. Einnar konu veðurklúbbur, það er ég! Stundum segir ég manninum mínum að það séu 55% líkur á því að það fari að snjóa klukkan þrjú og hann horfir á mig eins og ég sé komin endanlega yfir strikið.

Það skondna er að ég á ekki líf mitt eða afkomu undir færð og snjóalögum. Ég þarf tiltölulega lítið að ferðast, bý miðsvæðis í bænum, á góð pólsk gúmmístígvél sem ég hef áreiðanlega áður sagt hér frá, snjógalla, húfu og vettlinga….já og brodda á stígvélin! Fátt stoppar mig með skófluna, maðurinn minn var meira að segja spurður nýlega hvort hann ætti snjóblásara en nei það var nú bara konan hans, með skóflugarminn á ferð!

Hvaðan kemur þá þessi ógurlega snjóþreyta? Á facebook fann ég skemmtilega setningu sem hljómaði á þá leið að finni maður ekki til gleði yfir snjónum þá muni vissulega verða minna um gleði í tilverunni en nákvæmlega jafn mikið af snjó! Það er einmitt það! Alveg sama hvernig ég reyni þá verður þessi setning alltaf jafn gáfuleg. Snjórinn er óumflýjanlegur, við höfum á honum enga stjórn hér og nú, hvað sem öllum loftslagsbreytingum líður. Kannski er snjókvíðinn minn skyldur öðrum kvíða, þ.e. að kvíða því sem ég get ekki stýrt. Líklega þarf ég að beita hann sömu tökum og ég tók flughræðsluna föstum tökum á sínum tíma. Í staðinn fyrir að láta óþægindin yfir aðstæðum sem ég gæti engan vegin stjórnað ná tökum á mér, þá lærði ég með tímanum að njóta einmitt þess. Að setjast inn í flugvél og njóta þess að bera enga ábyrgð. Setja traust mitt á lífið og flugmennina og hafa það eitt hlutverk að drekka kaffi og hlusta á eitthvað skemmtilegt í símanum mínum.

Þegar ég var lítil á Akureyri, fannst mér snjórinn frábær en þó snjóaði mun meira en núna, að minnsta kosti í minningunni. Kannski var einhver meiri stöðugleiki í veðurfarinu, veit ekki en froststillur og snjóþyngsli er það vetrarveður sem ég man mest eftir. Við ferðuðumst mikið um á svokölluðum skíðasleðum eða sparksleðum enda umferðin miklu minni, ekkert var saltað heldur þjappaðist snjórinn niður og varð sléttur og fínn. Ég horfði aldrei á veðurspá, elskaði stórhríð og sá nákvæmlega ekkert neikvætt við það þegar snjóaði hressilega. Að vísu þurfti ég ekki að keyra bílinn eða fara til vinnu en veðrið var nú sjaldnast þannig að ekki mætti brjótast í kjörbúðina á næsta götuhorni og á þessum árum voru jú matvöruverslanir á svo til hverju götuhorni í bænum. Svo tók veturinn enda án þess að nokkur hefði farið til Tenerife (enginn sem ég þekkti allavega) og allir fremur sáttir.

Í vetur mun ég bara ferðast til Vermont þar sem sonur minn býr og þar snjóar sko síst minna en hér þannig að eina leiðin fyrir mig er núna að taka í hnakkadrambið á sjálfri mér og hætta þessari vitleysu. Læra það að mitt hlutverk er ekki að hafa stjórn á snjókomu eða færð í götunni þar sem ég bý…eitthvað sem hljómar augljóst en ég var samt farin að efast. Njóta snjókomunnar, njóta kaffibollans inni, njóta þess að geta ennþá mokað en gera það aðeins sjaldnar, fækka veðurathugunum og treysta því að mér verði sagt frá ef von er á stórhríð. Og gleðjast ómælt yfir bráðsnjöllum mokstursmönnum sem mæta eins og glaðir englar og hreinsa í kringum okkur.

Sumsé að hætta að draga úr gleðinni í lífi mínu með að hafa áhyggjur af snjó en það gefur álíka mikið og að naga frosinn ullarvettling.

Akureyri göngustígur

Pistillinn birtist upphaflega á bloggsíðu Ingu Dagnýjar Eydal 

VG

UMMÆLI