Að frumkvæði nemendafélagsins Þórdunu í Verkmenntaskólanum á Akureyri, VMA, verður bleikur fimmtudagur í VMA í dag í minningu Bryndísar Klöru Birgisdóttur, sem lést af sárum sínum 30. ágúst sl. eftir stunguárás á Menningarnótt í Reykjavík.
„Bleikur var uppáhalds litur Bryndísar og með því að klæðast bleiku í dag vilja nemendur og starfsfólk VMA heiðra minningu Bryndísar Klöru og sýna hluttekningu og stuðning við fjölskyldu hennar og vini,“ segir í tilkynningu á vef VMA.
Minningarsjóður Bryndísar Klöru hefur verið stofnaður og er forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, verndari sjóðsins. Sjóðnum er ætlað að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni. Sjóðurinn mun einbeita sér að fræðslu, rannsóknum og vitundarvakningu til að koma í veg fyrir að sá hörmulegi atburður er leiddi til fráfalls Bryndísar Klöru endurtaki sig.
Tekið er við framlögum á reikninginn 0515-14-171717, kennitala 430924-0600.
UMMÆLI