Björg Eiríksdóttir valin bæjarlistarmaður Akureyrar

Frá Hofi í dag. Mynd/Ragnar Hólm.

Björg Eiríksdóttir á sér langa og breiða menntun á sviði fagurlista, hugvísinda og menntavísinda frá Myndlistaskólanum á Akureyri, Kennaraháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri, en hún var í dag valin bæjarlistarmaður Akureyrar á Vorkomu Akureyrarstofu í Hofi í dag.

Björg hefur haldið um 8 einkasýningar á Akureyri, Reykjavík og meðal annars Noregi en á starfslaunatímanum mun Björg einbeita sér að nýrri einkasýningu sem hún hefur þróað í dágóðan tíma og á rætur að rekja til meistaraprófsrannsóknar hennar, þar sem fjallað var um samskipti manna við umhverfið sitt í gegnum skynjun líkamans.
Í verkum sínum hefur hún fengist við mannlega tilvist, líkama og innra líf, og einnig oft við mynstur. Verkin hefur hún unnið í ýmsa miðla, s.s. málverk, þrykk, útsaum, ljósmyndir og vídeó, allt eftir hugmyndinni hverju sinni.

Fjöldi annara viðurkenninga og verðlauna voru einnig afhent en þar má nefna bygginguna Aðalstræti 4, Gamla apótekið, en húsið þykir ein merkasta bygging Akureyrar frá 19. öld og hefur einstakt varðveislugildi vegna byggingarlistar, menningarsögu og staðsetningar. Einnig voru veitt byggingarlistarverðlaun til Jóns Geirs Ágústssonar arkitekts fyrir þann hluta ævistarfs hans sem snýr að Akureyri,  svo voru jafnréttisviðurkenningar veittar og þær hlutu Öldrunarheimili Akureyrar og Andrea Sigrún Hjálmsdóttir. Einnig var veitt heiðursviðurkenning Menningarsjóðs til tveggja einstaklinga, þeim Birgi Sveinbjarnarsyni fyrir framlag sitt til miðlunar sögu og menningar á Íslandi öllu og Rósu Kristínu Júlíusdóttur fyrir mikilsvert og óeigingjarnt framlag til myndlistar og myndlistarkennslu á Akureyri.

VG

UMMÆLI

Sambíó