Fyrsta skóflustungan að bjórböðum á Árskógssandi verður tekin á morgun, þann 28.september. Bruggsmiðjan Kaldi hyggst opna bjórheilsulind á staðnum og verður það sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Í heilsulind þessari verður boðið upp á bjórböð og þar getur fólk jafnvel gætt sér á bjór á meðan.
Bruggunaraðferð Kalda er af tékkneskum sið en við opnun Bruggsmiðjunnar árið 2006 fengu eigendurnir, hjónin Agnes Anna Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafson, til sín tékkneskan bruggmeistara til þess að aðstoða þau og kynna fyrir þeim tékkneskar bruggunaraðferðir. Tékkland hefur löngum verið þekkt fyrir að framleiða gæðabjór en bjórheilsulindir eru þar víða og mjög vinsælar bæði hjá ferðamönnum og heimamönnum þar í landi.
Það er gerið í bjórnum sem er sagt mjög nærandi fyrir húð og hár og eru böðin helst hugsuð til heilsubóta. Áætlað er að bjórböðin á Árskógssandi verði 7 talsins, hvert þeirra tveggja manna og einnig heitur bjórpottur. Bjórböðin verða nálægt Bruggverkjsmiðju Kalda og þar mun einnig vera veitingastaður. Áætlað er að bjórböðin opni í mars eða apríl á næsta ári og líklegt verður að teljast að þetta verði til þess að aukinn fjöldi ferðamanna heimsæki svæðið.
UMMÆLI