Nauðsynleg uppbygging flugvallarins á Akureyri hefur verið mikið í umræðunni undanfarin ár. Heimamenn hafa ítrekað bent á að uppbygging flugvallarins sé nauðsynlega, bæði vegna aukins utanlandsflugs og ekki síst vegna þess að Akureyrarflugvöll gegnir hlutverki varaflugvallar Keflavíkurflugvölls.
Þá er það talið nauðsynlegt að stækka flughlaðið sem fyrst sem og flugstöðina, enda þolir hún varla þá miklu umferð sem hefur skapast síðan að ferðaskrifstofan Super Break fór að fljúga beint til Akureyrar frá Bretlandi.
Vilja flýta fyrir uppbyggingu flugvallarins
Fjárfestingarfélagið KEA, í samvinnu við Höldur og SBA-Norðurleið, hafa boðist til að byggja nýja flugstöð við Akureyrarflugvöll til að flýta fyrir uppbyggingunni. Morgunblaðið greinir fyrst frá þessu um helgina. Félögin vinna nú að þessari hugmynd en nýja flugstöðin yrði þá ætluð millilandaflugi. Samkvæmt þessari hugmynd yrði kostnaðurinn við verkið mun minni en aðrar eldri hugmyndir hafa gert ráð fyrir. Nýja byggingin yrði svo leigð rekstraraðila flugvallarins.
Heildarkostnaður við nýja flugstöð 200-400 milljónir
Hugmyndin byggir á því að reisa 1.000-1.500 fermetra stálgrindarhús við hlið núverandi flugstöðvar. Heildarkostnaður við verkið væri á bilinu 200-400 milljónir eða 200-250 þúsund á fermeter. Flugstöðin yrði síðan leigð út til rekstraraðila tilbúin til innréttingar og án tækjabúnaðar. Halldór Jóhannsson, framkvæmdarstjóri KEA, segir í samtali við Vísi að núverandi aðstaða í flugstöðinni sé óviðunandi. „Hún er einfaldlega of lítil. Þetta er aðstaða sem er ekki boðleg ef að menn ætla á annað borð að stuðla að millilandaflugi eins og ríkissjóður er meðal annars að gera með Flugþróunarsjóði. Okkur finnst í sjálfu sér þetta fylgja, bara eins og nótt fylgir degi, að þetta þarf að laga og bæta,“ segir Halldór í samtali við Vísi um málið.
Tæki aðeins 7-12 mánuði að reisa nýja flugstöð
Málið er enn sem komið er ekki komið langt en þó er búið að teikna upp grófa skissu af því hvernig flugstöðin lítur út samkvæmt þessari hugmynd. Á næstu vikum eru fyrirhugaðir formlegir fundir með bæði ISAVIA og samgönguráðuneytið til að koma málinu af stað. Gangi það upp er enn margt sem þarf að gera áður en flugstöðin verður reist en gert er ráð fyrir því að það taki aðeins 7-12 mánuði að reisa sjálfa flugstöðina.
UMMÆLI