NTC

Bjarni Herrera gefur út bókina Supercharging Sustainability

Bjarni Herrera gefur út bókina Supercharging Sustainability

Akureyringurinn Bjarni Herrera Þórisson mun gefa út bókina Supercharging Sustainability fyrir alþjóðlegan markað á næstinnu. Bjarni sem á langan feril að baki á bæði fjármálamarkaði og við sjálfbærnistörf segist ekki geta beðið eftir því að deila bókinni, sem hefur verið í vinnslu undanfarin tvö ár, með heiminum.

Bjarni segir að bókin sé hans leið til að bæði læra meira um þetta mikilvæga hugtak sjáfbærni en einnig til þess að deila með öðrum þekkingu sinni sem geta svo áfram stuðlað að því að byggja upp sjálfbærari framtíð.

Bjarni Herrera á að baki langan feril í stjórnunarstörfum í fjármálageiranum og um víða veröld. Hann segir að norðlenskt uppeldi hans og búseta í Asíu og Bandaríkjunum, auk þess að eiga ættir að rekja til Suður-Ameríku, hafi gefið honum einstaka sýn á lífið og veröldina. Eftir að hafa starfað sem ritari stjórnar Arion-banka í kjölfar bankahrunsins árið 2008 flutti hann sig til Asíu þar sem hann lærði og starfaði hjá amerísku skipaflutningafélagi í Singapore. Í kjölfarið var hann fenginn í stofnendahóp og sem framkvæmdastjóri sjálfbærniráðgjafar þar sem hann náði að byggja upp markaðsráðandi stöðu yfir nokkurra ára tímabil og hafa jákvæð áhrif á hvernig fyrirtæki tóku á sjálfbærnimálum sínum. Félagið var svo keypt af KPMG.

Bjarni var svo ráðinn til Oslóar sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá Cicero Shades of Green, einu fremsta félagi á sviði grænna fjármála, en það var svo keypt af S&P Global, stærsta fyrirtæki heims á sviði lánshæfismata. Eftir að hafa siglt Shades of Green inn til S&P ákvað hann að stofna fyrirtækið Accrona sem veitir þjónustu og vörur á sviði sjálfbærra fjármála og tengir þannig saman sjálfbærni og fjármálamarkaði.

„Það hefur sannarlega verið nóg að gera undanfarin ár en ég hef lært mikið og í gegnum þetta allt ákvað ég að skrifa bók. Þessi bók hefur verið í vinnslu undanfarin tvö ár og hefur þýtt vinnu seint fram á kvöld, um helgar og margar áskoranir sem hefur þurft að tækla. Ég hef fengið hjálp og góð ráð frá vinum, samstarfsfólki og öðrum fremstu sérfræðingum á þessu sviði. Þetta hefur verið ævintýri og mun sennilega halda áfram að hafa áhrif á mig og vonandi aðra sem lesa bókina,“ segir Bjarni.

Bjarni er uppalinn á Brekkunni á Akureyri þar sem hann hóf skólagöngu sína í Lundaskóla. Þar var hann hluti af fyrsta árganginum sem útskrifaðist úr 10. bekk. Eftir það tók Menntaskólinn á Akureyri við en þar var hann meðal annars varaformaður Skólafélagsins Hugins.

„Ég spilaði líka fótbolta með Ka og er sennilega einn af fáum sem náði að spila handbolta með bæði KA og Þór, ég var þó aldrei frægur handboltamaður. Mér þykir vænt um að sjá uppgang á Akureyri og sérstaklega var gaman að sjá Drift EA stofnað um daginn,“ segir Bjarni að lokum.

Sambíó

UMMÆLI