Heimsmeistarakeppnin í íshokkí kvenna hefst mánudaginn 27.febrúar næstkomandi og fer riðill Íslands fram hér á Akureyri en sex þjóðir mæta til leiks og verður því nóg um að vera í Skautahöll Akureyrar á næstu dögum.
Íslenski landsliðshópurinn samanstendur af 22 leikmönnum og er meirihlutinn frá Akureyri. Ein þeirra er Birna Baldursdóttir. Hún ætti að vera kunn öllum íþróttaáhugamönnum á Akureyri enda verið í fararbroddi hjá SA undanfarin ár auk þess sem hún hefur oft spilað stórt hlutverk í blakliði KA.
Sjá einnig: Tólf úr SA í HM-hópi Íslands
Kaffið fór á stúfana og ræddi við Birnu, sem leikur lykilhlutverk í landsliðinu líkt og undanfarin ár. Hvað getur hún sagt okkur um liðið sem keppir fyrir Íslands hönd á mótinu?
,,Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí samanstendur að þessu sinni af tuttugu og tveimur leikmönnum á aldrinum 16 – 36 ára. Tólf af þeim leika með SA, Ásynjum og Ynjum. Fimm koma koma frá Birninum og fimm leikmenn leika erlendis, þrjár í Noregi, ein í Svíþjóð og ein í Skotlandi. Við erum svakalega þéttur og góður hópur og höfum spilað og æft saman lengi. Við þekkjumst því flestar nokkuð vel enda eigum við það sameiginlegt núna að koma fram fyrir hönd íslenskrar þjóðar og hugsum ekki um það að viku áður vorum við að berjast á móti hvor annarri á ísnum,“ og vísar til þess að deildarkeppni Íslandsmótsins lauk á dögunum en þar höfðu lið Skautafélags Akureyrar gígantíska yfirburði.
Sjá einnig: Akureyrarslagur í úrslitum um Íslandsmeistaratitil
Ísland stefnir á gullið – Skipulagður undirbúningur í eitt ár
Birna er sannfærð um að íslenska liðið geti keppt um gullið í ár og segir liðið hafa sett sér það markmið fljótlega eftir að síðasta Heimsmeistaramóti lauk en þá hafnaði íslenska liðið í 3.sæti í þessum sama riðli.
,,Okkar lokamarkmið var sett fljótlega eftir síðasta mót en það er klárlega að taka gullið í ár. Við sáum það strax að við hefðum getað unnið þá leiki sem við vorum að tapa hefði til dæmis liðsheildin verið í betra formi. Vissulega erum við allar í fínu formi en að spila fimm íshokkíleiki á sjö dögum er meira en að segja það og því þarf margt að smella hjá manni bæði líkamlega sem og andlega.“
,,Eitt af því sem við gerðum var að búa til síðu á andlitsbókinni sem kallast ,,12 mánaða undirbúningur”. Þá síðu erum við búnar að nota í um 360 daga þar sem við erum að deila markmiðum okkar og sigrum, mataræðishugmyndum eða styðja hvor aðra í okkar daglegu fjölskyldulífi svo eitthvað sé nefnt,“ segir Birna.
Við tökum auðvitað einn leik í einu og vonum að mannskapurinn verði heill út allt mótið því eins og málshátturinn segir þá er engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn og við ætlum að gera þetta sem lið.“
Spánverjar helstu andstæðingarnir
Ásamt Íslandi í riðlinum eru Spánn, Mexíkó, Rúmenía, Nýja-Sjáland og Tyrkland. Ísland hefur marga hildina háð við Spánverja á undanförnum árum og lítur Birna á þær spænsku sem helstu andstæðinga Íslands.
,,Andstæðingar okkar eru auðvitað alltaf með nokkrar nýliða ár frá ári og mismunandi hverjir gefa kost á sér í liðin eins og gengur og gerist. Allavega höfum við heyrt að stundum séu góðir leikmenn eftir heima sem koma ekki vegna kostnaðar eða annarra ástæðna. En eins og við sjálfar þá þurfa flest liðin að sjá um að greiða ferðakostnað sjálfar. Við búumst samt alltaf við þeim bestu í hverju liði og gerum enga undantekningu í ár.“
,,Okkar helstu andstæðingar eru stelpurnar frá Spáni myndi ég segja. Við höfum hingað til aldrei náð að sigra þær en minnistæðasta augnablik mitt í íshokkí er einmitt í leik á móti þeim, á Spáni 2015 þar sem við jöfnuðum á síðustu sekúndunni eftir að hafa verið þremur mörkum undir þegar um 5 mínútur voru eftir.“
,,Dugnaður er orð sem við þekkjum allar eftir veturinn“
Eins og sjá má mætir íslenska liðið afar vel undirbúið til leiks. Liðið mætti Nýja-Sjálandi í æfingaleik í Skautahöll Akureyrar í gær og vann 4-2 sigur. Birna kveðst ánægð með standið á liðinu, fjórum dögum áður en stóra stundin rennur upp.
,,Undirbúningur hefur gengið nokkuð vel. Við erum allar búnar að æfa svakalega vel enda eins og ég sagði áðan þá var markmið liðsins að bæta úthald, þol og kraft og dugnaður er orð sem við þekkjum allar eftir veturinn. Það eru 4 lið í deildinni og því náum við að berjast aðeins á móti hvor annarri á ísnum í Íslandsmótinu og svo höfum við tekið nokkar landsliðæfingarhelgar í vetur til að spila með hvor annarri í línu og æft allskonar kerfi og aðrar útfærslur til að koma svarta kvikindinu inn,“ segir Birna.
Setningarathöfn Heimsmeistaramótsins verður í Skautahöll Akureyrar á mánudag klukkan 19:30. Hálftíma síðar, eða klukkan 20, hefst svo opnunarleikur mótsins sem verður á milli Íslands og Rúmeníu. Síðari hluti viðtalsins við Birnu verður birtur um helgina.
Sjá einnig
UMMÆLI