Gæludýr.is

Birna á forsetalista í Berklee: „Við konur eigum það til að gera lítið úr hæfileikunum okkar“

Birna á forsetalista í Berklee: „Við konur eigum það til að gera lítið úr hæfileikunum okkar“

Grenvíkingurinn Birna Eyfjörð Þorsteinsdóttir stundar söngnám í Berklee College of Music í Valencia. Birna komst á forsetalista hjá skólanum eftir fyrstu önn sína.

Birna er 21 árs gömul og er píanóleikari að mennt en er nú að stíga sín fyrstu skref sem söngkona. Hún flutti frá Grenivík til Valencia í haust til þess að stunda nám sitt í Berklee.

„Ég er enn á fyrsta ári á ég eftir að velja mitt aðal viðfangsefni sem verður líklegast tónsmíðar og production. Ég var lengi að hugsa mig um þegar ég var að sækja um skóla á síðasta ári en það er eins og Berklee sé alltaf búinn að fylgja mér í gegnum tíðina,“ segir Birna í spjalli við Kaffið.is.

Hún segir að hún hafi verið sérstaklega hrifinn af skólanum þar sem að tónskáldið og Akureyringurinn Atli Örvarsson stundaði þar nám. Birna segir að hann hafi lengi vel verið átrúnaðargoð hennar en hann varð síðar yfirmaður hennar þar sem hún lærði af honum í stúdíóinu hans og aðstoðaði við gerð kvikmyndatónlistar.

Þegar ég hóf störf hjá Atla árið 2019 kynntist ég einnig öðru tónskáldi honum Finni Sigurjóni Sveinbjarnasyni sem einnig stundaði nám við Berklee Valencia þannig að ég áttaði mig fljótlega á því að Berklee væri góð leið fyrir mig. Sérstaklega af því að skólinn er svo víðtækur og kennir í rauninni allar mögulegar tegundir af tónlist.“

Birna segir að henni hafi brugðið þegar hún frétti að því að hún komst á forsetalistann. Að komast á forsetalista þýðir að viðkomandi fær hæstu einkunn, eða A, í öllum áföngum annarinnar.

„Ég held að stærsta ástæðan fyrir þeim árangri séu góðu vinnubrögðin og samskiptin sem ég lærði við það að vinna hjá Atla og ekki síður þegar ég starfaði sem aðstoðarmaður upptökustjóra hjá Sinfóníuhlómsveit Norðurlands. Þeir Atli Örvarsson og Þorvardur Bjarni treystu mér fyrir mörgu og ég er ótrúlega þakklát fyrir það.“

Hún segir að það verði erfiðara að halda sér á forsetalistanum því lengur sem líður á námsferilinn en að hún ætli sér þó vissulega að gera það.

„Ég vona að eiga sæti á forsetalistanum geti hjálpað mér að fá styrk frá skólanum þar sem að skólagjöldin eru glæpsamlega há,“ segir Birna.

Birna er ekki einungis dugleg í skólastofunni en hún lætur einnig til sín taka í félagslífi skólans. Um þessar mundir er hún að koma á legg nemendafélagi innan Berklee sem kallast Confident Women in Music.

„Félagið einblínir á að konur í skólanum losi sig við kvíðann og svikaraheilkennið og trúi á sjálfa sig. Það er leiðinlegt að segja það en maður sér það bæði á Íslandi og líka í Berklee hvað við konur eigum það til að gera lítið úr hæfileikunum okkar.“

Það eru spennandi tímar framundan hjá þessari efnilegu tónlistarkonu en hún stefnir á að fara að gefa út lög á næstunni.

„Planið er að gefa út öll mín lög sem ég hef geymt ofan í skúffu síðustu ár. Ég hef samið lög frá 11 ára aldri en hef ekki haft kjark til að gefa neitt opinberlega út. Í fyrra samdi ég tónlistina fyrir leikritið Halastjörnu sem var góð reynsla og hjálpaði mér að komast út úr skelinni. Ég stefni á að gefa út mína fyrstu plötu í lok sumars og svo er ég mikið að taka upp, syngja og vinna með öðrum listamönnum.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó