Framsókn

Bílaleiga Akureyrar hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í sjálfbærri þróunÞorbjörg Jóhannsdóttir sölustjóri Europcar á Íslandi og Steingrímur Birgisson forstjóri Hölds-Bílaleigu Akureyrar veittu verðlaununum móttöku í Berlín. Mynd: holdur.is

Bílaleiga Akureyrar hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í sjálfbærri þróun

Höldur- Bílaleiga Akureyrar hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í sjálfbærri þróun á heimsráðstefnu Europcar Mobility Group sem haldin var í Berlín í byrjun mars.

Fyrirtækið var þar verðlaunað fyrir framúrskarandi vinnu við uppbyggingu innviða er snúa að orkuskiptum sem og fjölda rafbíla í flotanum en Europcar á Íslandi er í dag með flesta rafbíla af öllum aðildarlöndum Europcar.

Höldur-Bílaleiga Akureyrar er nú með yfir 500 rafbíla í flota sínum frá mörgum framleiðendum en fjöldi rafbíla sem og vistvænna bíla er um 26 prósent af heildaflota fyrirtækisins. Á síðustu árum hefur fyrirtækið einnig unnið að uppbyggingu hleðsluinnviða með stækkun heimtauga og uppsetningu á 60 hleðslustöðvum á sex starfsstöðvum fyrirtækisins víða um landið.

„Viðurkenningin er staðfesting á því að fyrirtækið er ekki aðeins í fararbroddi þegar kemur að orkuskiptum bílaflotans á Íslandi heldur einnig í samanburði við önnur lönd sem Europcar starfar í á heimsvísu. Hér er því er um að ræða ánægjulega viðurkenningu á áherslum fyrirtækisins og starfsfólki hvatning til áframhaldandi vinnu í átt að sjálfbærni,“ segir í tilkynningu á vef fyrirtækisins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó