Betri heimabyggð – verkefni í 7. bekk Giljaskóla

Betri heimabyggð – verkefni í 7. bekk Giljaskóla

Á miðstigi í Giljaskóla hafa nemendur unnið tvö stór þemaverkefni sem tengjast grunnþáttum menntunar samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla í vetur og hafa þessi verkefni komið í stað hinnar hefðbundnu kennslu. Stundaskráin hefur verið opnuð mikið og ekki settar niður námsgreinar í ákveðna tíma heldur stýra verkefnin sem unnin eru hverju sinni stundaskránni. 

Síðustu vikurnar hafa nemendur unnið verkefni sem tengjast lýðræði og mannréttindum og hét þemað Betri heimabyggð. Nemendur unnu í mismunandi pörum í verkefnum sem samþætta íslensku, ensku, stærðfræði, náttúrufræði og samfélagsfræði.  

„Sérstaklega var ánægjulegt hversu vel fyrirtæki og einstaklingar tóku nemendum þegar þeir hringdu og óskuðu eftir viðtali. Allir aðilar sem haft var samband við tóku jákvætt í óskina og voru til í að hitta nemendur,“ segir í tilkynningu frá Giljaskóla. 

Allir nemendur unnu eftirfarandi verkefni og kynntu á íbúaþingi fyrir foreldra og bæjarfulltrúa:

Hugtakakort : Hugstormun um grænan bæ (umhverfisvænni bær) og hvernig Akureyri getur orðið umhverfisvænni.

Jákvætt og neikvætt : Nemendur fóru um bæinn með strætó og tóku myndir af því sem þeim þótti jákvætt og neikvætt á Akureyri. 

Hvað vantar: Í sameiningu fundu nemendur hvað þeim finnst vanta á Akureyri og skráðu það niður. Í pörum völdu þeir sér síðan atriði sem þeim þótti vanta og bjuggu til líkan af því. Mörg mjög flott líkön urðu til t.d. af 50 m innisundlaug, gervigras fótboltavelli á Þórssvæðinu, hópfimleikahús, Rush og IKEA.

Frétt: Nemendur skráðu niður alla þá afþreyingu sem er í boði á Akureyri og nágrenni, völdu sér síðan eitt atriði og skrifuðu frétt sem tengdist staðnum, fréttina skrifuðu nemendur bæði á íslensku og ensku. 

Viðtal: Nemendur völdu sér draumastarfið, útbjuggu spurningar og heyrðu síðan í einstakling sem vann við þetta starf á Akureyri, óskuðu sjálfir eftir viðtalstíma, tóku strætó eða gengu á staðinn og tóku viðtalið. Tekin voru viðtöl við t.d. leikskólakennara, slökkvilið, lögreglu, arkitekt, kokk, bakara, dýralækni og flugmann. 

Tölfræðikönnun: Nemendur bjuggu til spurningar sem tengdust Akureyri og spurðu nemendur og kennara. Niðurstöðurnar settu þeir síðan fram bæði skriflega á blaði og í töflureikni.

Bæði kennarar og nemendur eru sammála um að þessar breytingar á skólastarfinu í vetur séu til hins betra og sjá nemendur meiri tilgang með náminu þegar það tengist allt inn í daglegt líf þeirra. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó