Besta jólagjöfinSr. Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

Besta jólagjöfin

Fyrir nokkrum dögum flutti Ríkisútvarpið landsmönnum þau sorgartíðindi að Rannsóknarsetur verslunarinnar ætlaði ekki að velja jólagjöf ársins eins og það hefur gert undanfarin ár. Síðast urðu þráðlausir hátalarar fyrir valinu.

Ég er svo gamall að ég man eftir því þegar fótanuddtæki var hin fullkomna jólagjöf ársins.

Seint gleymi ég bernskujólum þegar ég tætti æstur utan af skemmtilega formuðum pakka frá ömmu og afa. Undrandi virti ég fyrir mér innihaldið: Alltof stórir ullarsokkar og innan í þeim pakki af King Edward vindlum, sverari gerðin.

Á sama tíma en við annað jólatré handfjatlaði roskinn eiginmaður frænku minnar leikfangabyssu í hulstri, þrjár hvelletturúllur og viðhafnarútgáfu af sleikipinna. Leyndist það góss í pakka frá sömu gefendum og sendu barnabarninu vindlana.

Eftir jól var gáleysisleg meðferð afa á merkimiðum sögð skýring á þessum undarlegu gjöfum.

Þrennt lærði ég af vindlunum og lopasokkunum:

– Jólagjöf ársins er ekki til því ekki er hægt að gefa öllum það sama

– Gjöf sem ég fúlsa við getur hæglega glatt einhvern annan

– Besta gjöfin er fólgin í skemmtilegum minningum – eins og þeirri sem ég rifja hér upp

Kæru lesendur! Megi hátíðin framundan gefa ykkur bæði skemmtilegar og bjartar minningar í hjörtun.

Gleðileg jól!

Pistillinn birtist upphaflega á baksíðu Norðurlands, fréttablaðs.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó