Framsókn

Bergmann og Hans Rúnar verðlaunaðir á Íslensku menntarverðlaununum

Bergmann og Hans Rúnar verðlaunaðir á Íslensku menntarverðlaununum

Íslensku menntaverðlaunin 2024 voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 5. nóvember. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum; fyrir framúrskarandi skóla- eða menntaumbótastarf, kennslu, þróunarverkefni, iðn- og verkmenntun, auk sérstakra hvatningarverðlauna.

Markmið verðlaunanna er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr. Verðlaunin ná til allra skólastiga, sem og til listnáms og félags- og tómstundastarfs.

Þeir Bergmann Guðmundsson, verkefnisstjóri við Brekkuskóla og Giljaskóla á Akureyri, og Hans Rúnar Snorrason, kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, fengu hvatningarverðlaunin í ár fyrir margháttað framlag, leiðsögn og stuðning við kennara og nemendur um allt land við að nýta upplýsingatækni með árangursríkum hætti.

Hvatningarverðlaun eru veitt til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Sem dæmi má nefna að frá 2018 hafa þeir haldið úti vefsíðunni Snjallkennslan þar sem þeir hafa miðlað fjölbreyttum hugmyndum um notkun upplýsingatækni í kennslu, sett upp leiðbeiningar, kynnt öpp og forrit sem nýtast í námi og kennslu og verkefni sem hægt er að aðlaga mismunandi aðstæðum, ekki síst fyrir nemendur sem standa höllum fæti í námi. Þeir hafa leiðbeint kennurum um notkun gervigreindar og unnið að gerð verkfæra sem efla orðaforða og málskilning nemenda.

Í umsögn um framlag þeirra segir meðal annars að þeir hafi verið einstakar fyrirmyndir í notkun á rafrænum verkfærum sem gera líf nemenda, foreldra og skólafólks auðveldara og skilvirkara.

Að menntaverðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Samtök iðnaðarins.

Mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið og Samtök iðnaðarins fjármagna verkefnið. Framlag mennta- og barnamálaráðuneytisins var aukið um eina milljón króna frá og með árinu 2024 samkvæmt ákvörðun ráðherra með það að augnamiði að styðja betur við verkefnið.

VG

UMMÆLI

Sambíó