Eftir jafna og spennandi netkosningu, þar sem áhorfendur fengu að velja næsta fjölskylduverk Leikfélags Akureyrar, er komin niðurstaða. Sigurvegarinn er söngleikurinn um Benedikt búálf eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson og tónlist eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson.
Þrjú verk komu til greina; Benedikt, Móglí og Fíasól. Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, segir ljóst að öll þrjú verkin eigi sér tryggan aðdáendahóp enda hafi kosningin verið afar jöfn. „Við erum afar stolt af þessu ferli að leyfa fólki að eignast hlutdeild í leikhúsinu með þessum hættu og treysta áhorfendum til að velja og eiga rödd. Ég hefði viljað setja öll þessi verk á svið en það varð að vera einn sigurvegari! Við hlökkum til að hitta Benedikt búálf á sviðinu og hlusta aftur á frábæra tónlist Þorvaldar Bjarna, lög sem auðvitað er öll löngu orðin þekkt hjá mörgum kynslóðum og uppáhald margra. Þetta verður ævintýralega töfrandi og skemmtileg sýning sem mun hreyfa við hjörtum okkar,“ segir Marta.
Benedikt búálfur fer á svið Samkomuhússins í febrúar 2021. Um samstarf Leikfélags Akureyrar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands er að ræða en leikstjórinn er Vala Fannell. „Það er ótrúlega spennandi verkefni að koma þessari vinsælu sögu aftur á fjalirnar. Svo skemmir ekki fyrir að tónlistin er alveg frábær. Þetta verður gríðarleg leikhúsveisla,“ segir Vala.
Ólafur Gunnar segir niðurstöðuna hafa komið honum skemmtilega á óvart. „Fíasól og Móglí eru yndisleg leikrit og þetta hefði getað farið hvernig sem er. En að því sögðu þá hef ég alltaf vitað að Benedikt minn og félagar í Álfheimum hafa verið mjög vinsælir meðal barna í meira en 20 ár, bæði í bókaformi og sem leikrit. Þessi niðurstaða er enn ein staðfestingin á því. Ég hlakka rosalega til að vinna með Leikfélagi Akureyrar og Þorvaldi Bjarna í að setja upp frábæra sýningu fyrir alla fjölskylduna. Þetta verður gaman.“
Verkið um Móglí, í leikgerð Illuga Jökulssonar, fékk næst flest atkvæði í kosningunni og hefur þegar verið ákveðið að setja þá sýningu á svið vorið 2022. Það eru því heldur betur spennandi tímar framundan hjá Leikfélagi Akureyrar.
UMMÆLI