Bekkur til minningar um Baldvin – „Takk fyrir komuna“

Bekkur til minningar um Baldvin – „Takk fyrir komuna“

Minningarsjóður Baldvins Rúnarssonar hefur látið útbúa bekk til minningar um Baldvin og komið honum fyrir við göngustíg norðan Glerarár. Bekkurinn er staðsettur skammt frá Glerárskóla og heimili Baldvins við Háhlíð. Bekknum var komið fyrir þann 31. maí síðastliðinn, en þá voru tvö ár síðan Baldvin lést eftir fimm ára baráttu við krabbamein.

Sjá einnig: Gáfu rúmlega tvær milljónir á afmælisdegi Baldvins

Minnisvarðinn er vandaður heilsársbekkur sem ber meðal annars áletrunina „Takk fyrir komuna“, en það voru einskonar einkunnarorð Baldvins áður en hann lést. Úsýnið frá bekknum er fallegt og ætti hann að koma sér vel í gönguferðum um svæðið.

Minningarsjóður Baldvins Rúnarssonar var stofnaður af fjölskyldu og vinum Baldvins með það að markmiði að heiðra minningu Baldvins sem lést þann 31. maí 2019, 25 ára að aldri. Tilgangur sjóðsins er að styrkja einstaklinga, hópa eða félög á sviði íþrótta- og mannúðarmála. Hingað til hefur rúmlega sjö milljónum króna verið úthlutað úr sjóðnum og hefur sjóðurinn meðal annars styrkt Heimahlynningu á Akureyri, DM félag Íslands, Göngudeild SAK, Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis, og Kvennaathvarfið á Akureyri. Menntaskólinn á Akureyri og Glerárskóli hafa einnig notið góðs af sjóðnum.

Hægt er að hlaupa fyrir Minningarsjóð Baldvins Rúnarssonar í Reykjavíkurmaraþoninu sem fer fram 21. ágúst næstkomandi. Einnig er hægt að heita á hlaupara sem hlaupa fyrir Minningarsjóðinn, sjá nánar um Reykjavíkurmaraþonið hér.

VG

UMMÆLI