Beint flug frá Bretlandi til Akureyrar í janúar

Akureyrarflugvöllur. Mynd: isavia.is

Breska ferðaskrifstofan Super Break er í þann mund að hefja sölu á norðurljósaferðum til Norðurlands í janúar og febrúar á næsta ári, þar sem verður flogið beint frá Bretlandi til Akureyrar. Boðið verður upp á átta ferðir frá átta mismunandi flugvöllum í Bretlandi með pláss fyrir 1.500 farþega.
Reiknað er með að ferðirnar verði þriggja til fjögurra nátta, þar sem ferðamönnunum stendur til boða að kíkja í Mývatnssveit eða ráða sinni dvöl sjálfir og velja sína eigin afþreyingu í öllu því sem Akureyri og Norðurland hefur upp á að bjóða.

Það má því segja að ferðirnar komi sér vel fyrir Akureyringa í rekstri og aðra í ferðamannageiranum, en janúar og febrúar eru yfirleitt þeir mánuðir sem minnst er að gera í ferðamannaiðnaðinum úti á landi. Norðurljósin virðast laða ferðamenn hingað til lands og hefur það verið markmið Markaðsstofu lengi vel að ná stærri hluta þeirra hingað norður.
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir að Norðurland sé besta svæðið á landinu til að sjá Norðurljós. „Veðuraðstæður eru þannig að mjög góðar líkur eru á því að sjá norðurljósin hér og það heillar okkar gesti. Vetrarferðamennska hefur farið vaxandi síðustu ár, enda margt spennandi sem hægt er að gera og margir staðir sem eru ótrúlega fallegir á veturna,“ segir Arnheiður.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó