Facebook-hópurinn Matargjafir Akureyri og nágrenni er hópur gerður í þeim tilgangi að hjálpa fjölskyldum sem hafa lítið milli handanna. Undanfarið hafa margar beiðnir borist frá einstaklingum en ástandið hefur snarversnað síðan í mars að sögn Sigrúnar Steinarsdóttur, annars umsjónaraðila hópsins.
„Við eigum í miklum vandræðum með að ná að afgreiða þær beiðnir sem eru að koma inn. Við erum ráðþrota,“ segir Sigrún.
Hópurinn Matargjafir Akureyri og nágrennis hefur verið starfræktur í rúm 6 ár. Um 2100 manns eru skráðir í hópinn.
„Beiðnum hefur fjölgað stöðugt og erum við að afgreiða að meðaltali 7 beiðnir á dag sem gerir rúmlega 200 beiðnir á mánuði. Engin fyrirtæki eru að aðstoða okkur, aðeins góðhjartaðir einstaklingar,“ segir Sigrún.
Það eru þær Sunna Ósk og Sigrún Steinarsdóttir sem halda úti síðunni og sjá um að taka á móti framlögum og dreifa til þeirra sem eiga lítið.
Vilt þú leggja málefninu lið? Þú getur skráð þig í facebook-hópinn hér.
Reiknisnúmerið á matargjafareikningum er:
1187 -05-250899 og kennitala 6701170300