BB Byggingar gáfu byggingadeild VMA þriggja línu laserBjörn Ómar (t.v.) og Helgi Valur, brautarstjóri í VMA. Mynd: www.vma.is

BB Byggingar gáfu byggingadeild VMA þriggja línu laser

BB Byggingar ehf – byggingaverktaki á Akureyri færði byggingadeild VMA þriggja línu laser að gjöf á dögunum. Laserinn er í raun nútíma-hallamál sem er nú til dags mjög mikið notaður hjá húsasmiðum og öðrum iðnaðarmönnum. Þetta kemur fram í frétt á vef skólans.

Björn Ómar Sigurðsson, eigandi og framkvæmdastjóri BB Bygginga, segir í samtali við VMA líta svo á að afar mikilvægt sé fyrir byggingariðnaðinn að vera í nánum og góðum tengslum við byggingadeild VMA og styðja hana eins og mögulegt sé. Þessi tengsl væri æskilegt að auka enn frekar. Til marks um náin tengsl BB Bygginga við byggingadeildina má nefna að fyrirtækið hefur að jafnaði haft í vinnu 1-3 nema í húsasmíði. Um þessar mundir vinna hjá fyrirtækinu þrír nemendur sem eru á fimmtu og síðustu önn í húsasmíði í VMA og fara í sveinspróf í vor.

Fór strax í smiðinn 16 ára gamall

Björn Ómar rifjar upp að hann hafi farið sextán ára gamall í húsasmíði í VMA árið 2006. Ekkert hafi annað komið til greina, enda hafi hann frá því hann var smápolli unnið í smíðum hjá BB Byggingum, sem faðir hans, Sigurður Björgvin Björnsson, stofnaði árið 2001. Áður var Sigurður Björgvin framkvæmdastjóri SJS verktaka á Akureyri, sem einmitt byggði þá álmu VMA sem hýsir byggingadeild skólans.

Björn Ómar tók sveinspróf árið 2009 og hefur síðan verið á fullu í hinum ýmsu byggingaframkvæmdum á Akureyri og í nágrannabyggðum. Fyrirtækið hefur m.a. tekið að sér ýmis verkefni fyrir sveitarfélög og byggt íbúðir fyrir almennan markað, núna eru BB Byggingar til dæmis með í byggingu fimmtán íbúðir í Naustahverfi og fjögurra íbúða raðhús í Síðuhverfi. Og á dögunum undirritaði fyrirtækið samning við Akureyrarbæ um byggingu sambýlis á mótum Klettaborgar og Dalsbrautar. Það verður því nóg að gera á næstunni hjá BB Byggingum, í sumar verða um 25 starfsmenn hjá fyrirtækinu og til viðbótar starfsmenn undirverktaka.

Fréttin var unnin úr frétt VMA.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó