Barnamenningarhátíðin hefst í dag


Barnamenningarhátíð á Akureyri stendur yfir þessa viku og Menningarfélag Akureyrar tekur þátt í hátíðinni með miklum krafti. Dagskrá hátíðarinnar hefst í dag, mánudaginn 16. apríl kl. 17, með opnum fundi um barnamenningu á Akureyri í Hömrum í Hofi. Að fundinum standa Menningarfélag Akureyrar, Barnabókasetur Íslands, Akureyrarstofa, söfnin á Akureyri og áhugafólk um barnamenningu. Við viljum hvetja alla áhugasama til að koma og taka þátt í opnum umræðum og hafa áhrif á það samfélag sem við búum í.

Þriðjudaginn 17. apríl kl. 17-18.30 stígur Eva Reykjalín dans í Hamragili ásamt akureyrskum íþróttahetjum. Öll börn á aldrinum 8-12 ára eru hjartanlega velkomin í dans og gleði með þeim.

Miðvikudaginn 18. apríl kl. 16-17 býður Tónlistarskóli Akureyrar upp á opna æfingu hjá Strengjasveit 2 í Hömrum. Strengjasveitina skipa börn á aldrinum 11-14 ára.

Á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 19. apríl, er heilmikil dagskrá í húsinu.

Menningarfélag Akureyrar, Skákfélag Akureyrar og danskennarinn Eva Reykjalín fagna sumri með því að bjóða ungum sem öldnum upp í dans og að kynnast skáklistinni.

Dansgleðin hefst kl. 10.30 fyrir 3-5 ára, kl. 11.00 fyrir 6-9 ára og kl. 11.30 fyrir 10 ára og eldri. Já – allir eru hjartanlega velkomnir!

Sumarskák Skákfélags Akureyrar hefst í Nausti kl. 13 og stendur til kl. 15.

Þar verður manngangurinn kenndur, Stefán Bogason Reykjavíkurmeistari í skák kemur í heimsókn og tekur jafnvel nokkrar skákir við gesti og gangandi, tekist verður á við skemmtilegar skákþrautir og farið í spurningaleiki.

„Það er afar gaman að standa að baki þessarar fyrstu Barnamenningarhátíðar á Akureyri með þessum hætti og það er von mín að sem flestir bæjarbúar, ekki síst börnin sjálf, komi og taka þátt í því sem í boði er. Við vonumst til þess að með því að gera þetta svona núna sýnum við fram á vilja okkar sem að þessu stöndum til að gera barnamenningu sýnilega og gæta þess að hæfileikar ungs fólks fái að njóta sín. Við viljum gjarnan sjá að hátíðin stækki ár frá ári og verði að veruleika með aukinni aðkomu bæjarfélagsins alls. Að okkur takist að skapa vettvang þar sem ungt fólk getur komið sér á framfæri sem og vinnu þeirra bæði í leik og starfi. Þannig styrkjum við sjálfsmynd þeirra og eignumst enn sterkari einstaklinga og aðlaðandi bæjarfélag þar sem fólk vill setjast að og búa,“ Segir Kristín Sóley Björnsdóttir, viðburðastjóri Menningarfélags Akureyrar.

Hún vill jafnframt minna á að auk þessara viðburða í Hofi verða alls kyns uppákomur víða um bæinn á Barnamenningarhátíðinni. Nánari upplýsingar og dagskrá er hægt að nálgast á Facebook síðu hátíðarinnar.

Á sumardaginn fyrsta er einnig eyfirski safnadagurinn, en þá bjóða söfnin í Eyjafirði börnum og fjölskyldum þeirra í heimsókn. Það verður því nóg um að vera þennan fyrsta dag sumars.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó