Barnamenningarhátíð Akureyrarbæjar stendur nú yfir í sjöunda sinn. Hátíðin hófst 1. Apríl síðastliðinn og stendur út mánuðinn. Markmið hátíðarinnar er að hvetja börn og ungmenni til virkrar þátttöku í menningarstarfi og veita þeim tækifæri til að njóta lista og menningar. Hólmfríður Kristín Karlsdóttir, verkefnastjóri hátíðarinnar, segir hana hafa farið vel af stað.
Fjölmargir viðburðir eru hluti af hátíðinni og má þar nefna listasýningar, tónleika og hinar ýmsu smiðjur, t.a.m myndasögusmiðju og leirsmiðju. Hægt er að skoða lista yfir viðburðina á barnamenning.is eða með því að smella hér. Yfir hátíðina verða ófáar listasýningar sem standa munu yfir allan mánuðinn, en einnig eru stakir viðburðir líkt og tónleikar Upptaktsins í Hofi á sunnudaginn. Hátíðin nær svo ákveðnum hápunkti á sumardaginn fyrsta en tíu viðburðir eru nú þegar á dagskrá þann dag og gætu fleiri bæst við þegar nær dregur.
Hólmfríður Kristín hefur áður verið verkefnastjóri Akureyrarvöku, en sér nú um Barnamenningarhátíðina í fyrsta sinn. Í samtali við fréttaritara segir hún verkefnið mjög skemmtilegt og leggur sérstaka áherslu á hversu fjölbreytt og indælt fólk kemur að hátíðinni úr hinum ýmsu stofnunum. Hátíðin verður stærri og stærri með hverju árinu og Hólmfríður segir það skemmtilegt að sjá hversu margt og fjölbreytt fólk er til í að vera skapandi og taka þátt í verkefninu af miklum metnaði.
UMMÆLI