NTC

Baráttan við bakkann – Skipulagsslys Akureyrarbæjar

Ingibjörg Bergmann Bragadóttir skrifar:

Ingibjörg Bergmann Bragadóttir skrifar:

Ég vil undirstrika það að eftirfarandi texti er skrifaður sem pistill og þ.a.l. inniheldur hann meðal annars spurningar, vangaveltur og staðreyndir í bland. Honum ber ekki að taka sem fréttaefni, fremur sem skoðun og reynslu höfundar.

Það eru eflaust fáir sem ekki hafa orðið varir við framkvæmdirnar sem standa yfir við Drottningabrautina um þessar mundir. Margir vita nákvæmlega hvað stendur til að gera þar meðan að aðrir vita ekkert hvað kemur til með að verða þarna. Það er þó nokkuð víst að allir hafa fundið fyrir því hversu skelfilegt það er að finna bílastæði ef þeir hafa eitthvað í miðbæinn að sækja.

Byrjum á byrjuninni
Deiliskipulag við Drottningarbrautarreit var samþykkt í byrjun árs 2012, þrátt fyrir undirskriftarlista sem skilað var inn til skipulagsnefndar til að mótmæla skipulaginu. Á mjög knöppum tíma urðu undirskriftirnar um 1600 talsins og bættust nokkur hundruð við þá tölu í vikunum eftir að listanum var skilað inn, en Vikudagur greindi frá þessu á sínum tíma. Bæjarstjórn þess tíma afskrifaði listann á þeim forsendum að fjöldi undirskrifta væri ekki fullnægjandi og þar af margar dæmdar ógildar, þ.e. ekki 10% af Akureyrarbæ.
Það þótti forsvarsmönnum listans einkennilegt þar sem að þau töldu sig einmitt hafa náð 10% þegar listanum var skilað inn en á vikunum eftir voru undirskriftir komnar í tæplega 2000. Þá var skilafrestur hinsvegar útrunninn og skipti því engu máli að um 2000 manns væri á móti þessu.

Knappur fyrirvari var gefin til þess að safna undirskriftum. 1600 á 6 dögum er þó ágætis árangur.

Knappur fyrirvari var gefinn frá Akureyrarbæ til þess að safna undirskriftum til að mótmæla skipulaginu. 1600 á 6 dögum er þó ágætis árangur.

Þá voru einhverjir óprúttnir aðilar sem að skrifuðu sig á listann en gleymdu að skrá síðustu töluna í kennitöluna sína, sem að sjálfsögðu gerir undirskriftina ógilda því að það er vitanlega ekki hægt að geta sér til um töfratöluna sjálfa. Enn aðrir óprúttnari aðilar dirfðust að skrifa nafnið sitt, án þess að skrifa það nákvæmlega eins og það er gefið upp í þjóðskrá.
En það er liðin tíð. Nú er skipulagið löngu samþykkt, framkvæmdir hafnar og ekki hægt að tuða yfir því sem orðið er.

Hagsmunaárekstur
Hér stóð kafli um hver væri arkitekt skipulagsins og á nýlegum breytingum þess en þar sem það liggur ekki ljóst fyrir hefur sá kafli verið tekinn út og verður vonandi fjallað um síðar þegar það liggur betur fyrir. Um var að ræða getgátur höfundar byggðar á símtali við Skipulagsnefnd og skiltið sem nú stendur við framkvæmdirnar en þó tekið fram að staðreyndir lágu ekki að baki aðrar en þær.

Litlir krakkar og legóið þeirra
Þegar ég sótti fundi vegna skipulagsins fannst mér einstaklega óþolandi að fylgjast með öllum þeim sem stóðu í forsvari fyrir skipulagið verja það eins og lítill krakki myndi verja legóið sitt. Það átti engin gagnrýni rétt á sér því að þau hönnuðu þetta skipulag fullkomlega. Við sem sátum fundinn vorum bara reitt fólk með gamaldags hugmyndir um að engu mætti breyta í miðbænum.
,,En hvað með t.d. bílastæðin? Það getur ekki verið í lagi að fækka bílastæðum í miðbænum um rúman helming?“
,,Nei, þeim fækkar sko ekkert, þeim mun fjölga,“ voru svörin sem maður fékk. Ef ég bara hefði farið á eðlisfræðibraut í Menntaskólanum á sínum tíma, þá hefði þessi stærðfræðijafna kannski gengið upp jafn vel hjá mér og þeim. Ef að þú byggir þrjú hús og hótel á fleti sem var einungis bílastæði fyrir og leggur þar með 3/4 af öllu svæðinu undir byggingar, þá hlýtur bílastæðum að fækka? Nei, fjölga meina ég, auðvitað. Svo verður náttúrulega bílakjallari undir húsunum, sem er samt ekki nema bara fyrir íbúa húsanna, þannig að það fellur svolítið um sjálft sig.
Ég hef einmitt orðið sérstaklega vör við þetta sjálf upp á síðkastið. Það hefur aldrei verið auðveldara að finna sér stæði í bænum. Um helgar fæ ég ekki bílastæði fyrir utan heima hjá mér. Í hádeginu fæ ég ekki bílastæði heima hjá mér né um kvöldmatarleytið. En ég fæ yfrleitt stæði fyrir miðnætti, eða ef ég er mjög heppin einu sinni og einu sinni yfir daginn. En það skiptir ekki máli, ég og allir aðrir sem eitthvað hafa í miðbæinn að sækja hvort sem það er til að vinna eða fara á einhverja viðburði í göngugötunni, eigum bara að labba og hjóla eða taka strætó, eins og eflaust allir bæjarfulltrúar og starfsmenn Akureyrarbæjar í ráðhúsinu gera. Það sést augljóslega á bílastæðinu fyrir utan hjá þeim, sem er örugglega það næst stærsta í miðbænum um þessar mundir. Það er samt ekki inn í myndinni að byggja neitt þar þrátt fyrir þennan rosalega húsnæðisskort í miðbænum sem að skipulagsnefnd lýsir yfir. Enda er eðlilega ekki hægt að bjóða starfsmönnum ráðhússins upp á það að geta ekki lagt bílnum sínum beint fyrir utan vinnustaðinn sinn.

Rústum bæjarmyndinni
Skipulagsnefnd þessa tíma, bæjarstjórn og arkitekt töldu þetta skipulag við Drottningarbrautarreit ýta undir minnkandi notkun einkabíla. Ég meina hver elskar ekki að láta fullorðna karla segja sér hvort maður eigi að eiga bíl eða taka strætó?
Nú hef ég búið í Amsterdam og París þar sem samgöngur eru virkilega góðar; neðanjarðarkerfi, tram, strætó og hjólastígar um allt, annað en hér. Það að Akureyrarbær skýli sér á bakvið það að færri stæði í miðbænum ýti undir minnkandi notkun einkabílsins er kjaftæði. Það er hálka u.þ.b. 60% af árinu og í þokkabót er Akureyri reist á brekku. Ef að skipulagsmenn Akureyrarbæjar ætla að fara að segja mér og öðrum að við eigum að hjóla um allt svo að þeir geti samviskusamlega hirt af okkur bílastæðin fyrir utan húsin okkar og vinnustaði þá held ég að ég þurfi að krefjast þess a.m.k. að þau kaupi handa mér kort í ræktina svo að ég drífi mögulega upp Listagilið.

img_4278

Fyrsta íbúðarhúsið af þremur farið að taka á sig mynd.

Bílastæðin eru þó bara minnsta vandamálið við þetta skipulag. Það hefði verið hægt að byggja eitt hús, tvö hús kannski, á einni eða tveimur hæðum í minni stærðargráðu og halda nokkrum bílastæðum eftir. Reyna mögulega á einhvern hátt að lengja göngugötuna til að auðga miðbæinn og bæjarlífið.
Nei, skipulagsnefnd fann nefnilega lausn sem að hentar engum. Að byggja þrjú hús á þremur hæðum plús ris sem að gjörsamlega útilokar Hafnarstræti 84-88 frá bæjarmyndinni. Þessi 100 ára gömlu, friðuðu hús sem að útlendingarnir keppast við að mynda á sumrin. Svo kemur hótel á hornið þar sem umferðarmiðstöðin stendur núna, þó er það víst eitthvað í skoðun hvenær það verður byggt vegna þess að það fæst enginn rekstraraðili til þess að reka það.
Skrítið. Kannski hafa hótelrekendur áttað sig á því sem skipulagsnefnd gerði ekki á sínum tíma, að hótel á Akureyri standa meira og minna auð yfir veturinn og þess vegna e.t.v. ekki ráðlegt að kaupa nýtt 150 herbergja hótel sem nýtist aðeins til fulls fjóra mánuði á ári.

Akureyri – öll lífsins gæði! / Allt lífsins kjaftæði?
Ertu ekki enn sannfærð/ur um að þetta skipulag sé eitt versta skipulag bæjarins?
Þá er vert að benda á fáránleg og eiginlega siðlaus samskipti framkvæmdaraðilanna, eða skort þar á, við íbúa og verslunareigendur í nánasta umhverfi skipulagsins.

Fyrsta teikning af birtu skipulagi.

Fyrsta teikning af birtu skipulagi.

Í fyrsta lagi var framkvæmdin á byggingu húsanna ekki kynnt fyrir eigendum eigna í Hafnarstræti, engin grenndarkynning haldin, né nokkuð gert í því að upplýsa þau um tilvonandi hávaða fyrir utan hjá þeim frá 8 á morgnanna til 7 á kvöldin í þrjá mánuði samfleytt. Svo ekki sé minnst á að framkvæmdirnar koma til með að taka amk tvö ár, þó með aðeins minni hávaða en var fyrst við byrjun verksins.
Eignarskerðingin sem líklegast verður á íbúðum Hafnarstrætis 84-88 þegar útsýnið gjörsamlega hverfur á bakvið steypuvirkið sem verið er að reisa, skiptir ekki máli. Það skiptir ekki máli þó að íbúðin lækki í verði eða að flestir eigendur á þessu svæði séu ósáttir við þetta allt saman og reiðir yfir ömurlegri framkomu. Þó segir í stefnu skipulagsnefndar að áherslur þeirra séu að:
– Virkja bæjarbúa til þátttöku í mótun skipulags með auknu samráði og gagnsæi við vinnslu skipulagsmála.
– Skipulag þjóni öllum íbúum.
Leiðrétting: Skipulag þjóni öllum tilvonandi íbúum sem kaupa nýjar íbúðir á stórfé. Skítt með hina sem fyrir eru.

Alvaldur Akureyrar
Sigmundur Einar Ófeigsson, fulltrúi fjárfestanna sem standa á bakvið byggingarnar, get ég eiginlega ekki sleppt úr þessari lofræðu, enda hefur hann svo sannarlega farið á kostum. Hann spígsporar hér um skipulagssvæðið og hreytir í hvern þann sem vogar sér að andmæla skipulaginu. Hann leyfir sér að æða í leyfisleysi inn á einkalóðir og gefa grænt ljós á að grafa þær í sundur vegna þess að það þarf að grafa eftir leiðslum og rörum sem þarf að nota.

Aðeins farið inn á lóð Hafnarstrætis 88..

Aðeins farið inn á lóð Hafnarstrætis 88..

Þetta leyfa þeir sér án þess að hafa sent út eina einustu beiðni eða látið íbúa vita af þessum aðgerðum fyrirfram. Þegar íbúar svo neita því að leyfa vinnumönnum aðgang að lóðinni er þeim hótað af Sigmundi, þar sem hann fullyrðir að þá verði eigandinn bótaskyldur fyrir öllum þeim töfum sem á skipulaginu verður fyrir tilstilli þessa, sem nota bene, skipta milljónum á dag. Það fyndna er að allt eru þetta aðgerðir sem örugglega hefðu ekki kostað hann nein andmæli og vesen hefði hann spurt fyrirfram en ekki bara ætt þarna um eins og alvaldur Akureyrar.

En það er einmitt kjarni málsins. Hroki og tillitsleysi af hálfu skipulagsnefndar, bæjarstjórnar, verkstjóra og í raun allra sem að þessu skipulagi koma gerir mann eiginlega orðlausan. Hefði þetta allt saman frá byrjun verið framkvæmt með siðareglur og almenna kurteisi að leiðarljósi, rætt við eigendur í Hafnarstræti og reynt að komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu, væri þessi reiði sem nú ríkir e.t.v. ekki til staðar.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó