Vinkonurnar Birta Kristín og Karítas Alda renna sér mikið í sleðabrekkunni í Sunnuhlíð með vinum sínum. Netgirðingin sem er neðst í brekkunni var orðin ansi lúin og Birta og Karítas vildu gera eitthvað í málinu þar sem sleðarnir runnu oft út á götu.
Birta og Karítas ákváðu því að skrifa bréf til Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrar, og athuga hvort það væri ekki hægt að gera eitthvað í málinu. Þær nýttu tækifærið og báðu einnig um nýjan leikvöll við Glerárskóla.
Erla Rebekka Guðmundsdóttir, móðir Birtu, segir að bréfið hafi verið skrifað á fallegt bréfsefni og skreytt með hjörtum. Þegar bréfið var klárt skelltu Birta og Karítas sér niður á bæjarskrifstofu og afhentu starfsmanni í afgreiðslu bréfið.
Fyrir jól kom svo póstur inn um lúguna með svari frá bæjarstjóranum.
„Kæru Birta og Karítas,
Takk fyrir bréfið og góða ábendingu. Nú er verið að vinna í leiksvæði við Glerárskóla en það verður gert í áföngum. Takk fyrir að láta okkur vita með brekkuna. Starfsmenn Umhverfiðsmiðstöðvar fóru og löguðu til bráðabirgða en ætla að gera betri lagfæringar seinna. Fariði samt varlega þegar þið eruð að renna ykkur.
Kærar þakkir fyrir fallegt bréf og gleðileg jól!
Ykkar borgarstjóri,
Ásthildur Sturludóttir.“
„Vá hvað það gladdi mikið og heldur betur girðingin orðin fín og þær svo glaðar og stoltar að á þær hefði verið hlustað, og hversu dásamlegt er að hún skyldi gefa sér tíma í að hafa upp á þeim og skrifa þeim svarbréf,“ skrifar Erla Rebekka á Facebook.
UMMÆLI