Ávarp Rektors HA á Háskólahátíð – Öflugur háskóli norðan heiða

Ávarp Rektors HA á Háskólahátíð – Öflugur háskóli norðan heiða

Tímamót voru þema í ræðu rektors, Eyjólfs Guðmundssonar. Tímamótin sem kandídatar standa á að loknu námi, tímamót háskólans hvað varðar samfélagsbreytingar með tilkomu gervigreindar og tímamót í eigin lífi því Eyjólfur lætur af störfum sem rektor í lok mánaðar eftir tíu ára starf. „Já – heimurinn allur er á stærstu tímamótum mannkynssögunnar því að með tilkomu gervigreindarinnar eru allar forsendur samfélagsins gjörbreyttar.“

Rektor fór yfir nokkrar tölur í ræðu sinni; háskólinn stefnir hraðbyri í að fara yfir 3000 stúdenta markið, rannsóknarstig fara yfir 3000 á hverju ári og doktorsnám byggist upp. Hann undirstrikaði þetta enn frekar í ræðunni; „Starfsmannafjöldi skólans eykst og starfa nú um það bil 250 manns við skólann með beinum hætti og vel yfir 750 manns koma að stundakennslu. Þannig eru það rétt tæplega 1000 einstaklingar sem koma að starfsemi HA á hverju skólaári. Allt saman kostar þetta fjármuni og á síðasta ári velti HA tæpum fimm milljörðum króna – og HA er, að því að mér sýnist fimmtánda stærsta opinbera stofnun landsins og önnur stærsta opinbera menntastofnunin. Já – sýn frumkvöðlanna á að hægt sé að vera með öflugan háskóla hér norðan heiða hefur svo sannarlega ræst.“

Þegar rektor talaði til kandídata í framhaldsnámi nefndi hann þá brúarsmiði í margvíslegum skilningi. „Þið sem brautskráist hér í dag eruð öll orðin sérfræðingar á ykkar sviði, hafið aflað ykkur viðbótarþekkingar sem byggir ofan á þá grunnþekkingu sem þið fenguð í fyrra háskólanámi. Þess vegna ætlast samfélagið – og ég – til meira af ykkur þegar kemur að því að byggja brýr; að tengja saman fólk og þekkingu til þess að leysa áskoranir samfélagsins með betri hætti en gert hefur verið áður. Á næstu 10 til 20 árum verðið þið leiðtogar okkar samfélags.” Þá hvatti hann kandídata til að huga vel að eigin heilsu og sinna sjálfum sér því öll erum við mikilvæg og líkt og rektor sagði í ræðu sinni, „Já kæru kandídatar – þið eruð skemmtileg, þið eruð einstök, þið eruð alls staðar.“

ÁVARP REKTORS, EYJÓLFS GUÐMUNDSSONAR, Á HÁSKÓLAHÁTÍÐ HÁSKÓLANS Á AKUREYRI, 15. JÚNÍ 2024:

Kæru kandídatar, starfsfólk Háskólans á Akureyri og allir góðir gestir.

Það er mér mikill heiður að standa hér í dag og ávarpa ykkur á Háskólahátíð Háskólans á Akureyri árið 2024. Hér fögnum við ykkur og ykkar árangri en ekki síður fögnum við háskólasamfélaginu við HA í heild sinni því þetta er svo sannarlega uppskeruhátíð fyrir skólann og reyndar Ísland allt. Að þessu sinni erum við að brautskrá yfir 540 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi af tveimur meginfræðasviðum.

Þegar litið er yfir síðustu tíu ár í sögu Háskólans á Akureyri, sjáum við fjölmargar breytingar og framfarir sem hafa átt sér stað. Við höfum ekki aðeins stækkað og styrkt skólann okkar, heldur höfum við einnig stuðlað að mikilvægu framlagi til íslensks samfélags. Þessi tímamót í sögu okkar bera vitni um samstöðu, metnað og ástríðu allra þeirra sem hafa lagt sitt af mörkum til að gera Háskólann á Akureyri að því sem hann er í dag.

Þema ársins í ár er: Tímamót! Þið, kæru kandídatar standið svo sannarlega á tímamótum í ykkar lífi sama hvaða námi þið eruð að ljúka. Háskólinn á Akureyri stendur á tímamótum þar sem huga þarf ítarlega að stefnu skólans næstu 20 árin – í mjög svo breyttu umhverfi – bæði kerfislegum breytingum sem og samfélagslegum breytingum með tilkomu gervigreindarinnar. Já – heimurinn allur er á stærstu tímamótum mannkynssögunnar því að með tilkomu gervigreindarinnar eru allar forsendur samfélagsins gjörbreyttar.

Og þetta eru persónuleg tímamót fyrir mig þar sem ég er hér í 10. og síðasta sinn sem rektor Háskólans á Akureyri. Það hafa verið alger forréttindi að fá að stýra Háskólanum á Akureyri síðastliðin 10 ár og svo sannarlega verið ferðalag þar sem reynt hefur á en líka unnist stórkostlegir sigrar og við, sem háskólasamfélag, höfum komist í gegnum allskonar erfiðleika þar sem að vírusar og önnur óværa hefur herjað á okkur – en ávallt komumst við í gegnum það sterkari en áður.

Kæru gestir, hér nær og þið sem fylgist með okkur í streymi.

Það styttist í fertugsafmæli Háskólans á Akureyri – og líkt og við segjum um mannfólkið sjálft þá er fertugum allt fært. HA hefur svo sannarlega dafnað vel á þessum áratugum þannig að skólinn stendur í dag sem öflugasta menntastofnun landsins, -, amk utan höfuðborgarsvæðisins – og ef við viljum, ef við sem hér störfum einsetjum okkur það markmið, þá getum við orðið öflugasta menntastofnun landsins!

Mitt grunnfag er hagfræði og tölur þykja mér einstaklega skemmtilegar. Skoðum helstu tölur fyrir Háskólann á Akureyri. Í fyrsta lagi stefnir allt í að HA komist fljótlega yfir 3000 nemenda markið, sama hvort það verði með auknum umsóknum eða sameiningu við aðrar stofnanir – nema hvorutveggja verði. Í öðru lagi hefur rannsóknastarfsemi skólans aukist á hverju ári, birtingum fjölgað og áhrif sérfræðinga skólans á innlent og alþjóðlegt samfélag er sífellt að aukast, þetta er mælt í rannsóknastigum sem eru vel yfir 3000 á hverju ári. Starfsmannafjöldi skólans eykst og starfa nú uþb 250 manns við skólann með beinum hætti og vel yfir 750 manns koma að stundakennslu. Þannig eru það rétt tæplega 1000 einstaklingar sem koma að starfsemi HA á hverju skólaári. Allt saman kostar þetta fjármuni og á síðasta ári velti HA tæpum 5 milljörðum króna – og HA er, að því að mér sýnist 15 stærsta opinbera stofnun landsins og önnur stærsta opinbera menntastofnunin. Já – sýn frumkvöðlanna á að hægt sé að vera með öflugan háskóla hér norðan heiða hefur svo sannarlega ræst.

Kæru kandídatar.

Það er gaman að tölum eins og þið hafið öll fengið að kynnast í ykkar námi … jú jú – vissulega misgaman en tölurnar tala sínu máli. Og það á við um ykkur líka. Það er svolítið áhugavert að kíkja á ykkar tölur. Á síðustu árum hafið þið verið að yngjast, að meðaltali, en eruð samt með elstu háskólanemum í Evrópu, rétt undir 29 ára, að meðaltali. Um 78% ykkar eruð konur og tæplega 22% karlar – og fulltrúar fleiri kynja eru á meðal nemenda við HA í dag. Við HA er rými fyrir allskonar! Það sem er kannski áhugaverðast fyrir okkur öll er að 35% stúdenta við HA eru af höfuðborgarsvæðinu, 58% utan höfuðborgarsvæðisins og 7% búa erlendis. Já kæru kandídatar – þið eruð skemmtileg, þið eruð einstök, þið eruð allsstaðar … Líka í tölum!

Kæru gestir, nær og fjær.

Þessar tölur eru áhugaverðar í íslensku samhengi. Tölurnar sýna svo ekki verði um villst að HA þjónustar fólk um allt Ísland, og reyndar víða um heim, en með sérstakri áherslu á byggðir utan höfuðborgarsvæðisins og við erum sjálf staðsett á norðurhluta landsins.

Við skiljum því þarfir fólks og þær áskoranir sem fylgja því að búa norðan heiða og fjallvega. Áframhaldandi uppbygging Háskólans á Akureyri, með starfsstöðvum víða um land, er því eitt af lykilatriðum þess að unnt sé að þjónusta allar byggðir landsins með viðunandi og mannsæmandi hætti undir styrkri forystu Háskólans á Akureyri. Háskólum mun fækka á næstu árum en HA verður í forystusæti við þær breytingar og verður nauðsynlegt mótvægi við suðrið sem Háskóli norðursins alls – frá vestri, um Norðurland til austursins. En jafnframt háskóli landsins alls í gegnum okkar öflugu fjarkennslu.

Forysta HA í að bæta aðgengi stúdenta að háskólanámi er ótvíræð.

Kæru kandídatar.

Þið hafið verið hluti af þessari vegferð, sama hvort sem þið hafið búið norðan eða sunnan heiða, og þurft að sækja hingað lotur þrátt fyrir vont veður og erfiðar aðstæður. Það þýðir að þið – sem hópur – skiljið betur en margir aðrir hversu mikilvægar samgöngur eru í okkar landi, hversu mikilvæg tæknin er til að bæta aðgengi að námi, og hversu mikilvægt það er að komið sé til móts við ykkur til að þið getið tileinkað ykkur nýjustu þekkingu og færni – og þannig, sem fagfólk og sérfræðingar á ykkar sviði stuðlað að enn betra samfélagi hér á landi um ókomna tíð.

Ágætu kandídatar, ég vil hvetja ykkur til að nýta þá færni og þekkingu sem þið hafið af fjarvinnu, nám er jú vinna, til þess að hvetja allar stofnanir hér á landi til að búa til umhverfi sem gerir fólki kleift að sækja þjónustu rafrænt, en jafnframt svo að allir séu fullgildir þátttakendur; huga vel að aðgengi að þjónustu hins opinbera, sama hvar á landi fólk býr og hvetja til að fólk geti unnið sín störf allsstaðar á landinu en fólk þurfi ekki að flytja fyrir störfin. Þið, kæru kandídatar getið haft hér mikil áhrif með því að minna stöðugt á það á ykkar framtíðar vinnustað að það er hægt að gera hlutina öðruvísi. Það byggðamynstur sem þróast hefur hér á landi er ekki óbreytanlegt lögmál heldur mannanna verk – því getið þið breytt – þið getið byggt brýr!

Kæru gestir – nær og fjær.

Með uppbyggingu doktorsnáms við Háskólann á Akureyri hefur skólanum tekist það verkefni að verða fullvaxta háskólastofnun sem er virkur þátttakandi í innlendu og erlendu rannsóknasamstarfi. Íslenskt samfélag þarf á djúpri og sannreyndri þekkingu að halda til þess að geta haldið áfram að vaxa og vera eitt af bestu samfélögum jarðarinnar til að lifa í. Þess vegna verður áframhaldandi uppbygging doktorsnáms lykillinn að bættri framtíð Háskólans á Akureyri og sérstaklega samfélaga utan höfuðborgarsvæðisins, því lykillinn að öflugra og fjölbreyttara atvinnulífi er að afla þekkingar sem nýtist til nýrra og verðmætra lausna – eins og við sjáum svo skýrt í fyrirtækinu Kerecis og þeim líftæknilegu aðferðum sem það hefur beitt til þess að bæta meðferð á sárum sem annars gróa illa.

Ágætu gestir bæði nær og fjær.

Á mínum 10 árum í starfi hefur mér verið tíðrætt um að gjáin á milli höfuðborgar og annarra svæða hér á landi sé stöðugt að stækka. Á þessum hátíðisdegi vil ég ekki dvelja um of við svo neikvæða umræðu en stundum er samt best að taka lítil dæmi til að sýna framá óréttlætið sem er í boði þeirrar hörmulegu byggðastefnu og byggðahugsunar sem tröllriðið hefur þessu landi síðustu 80 árin. Fyrra dæmið tengist mínu eigin fagfélagi, félagi forstöðumanna. Boðað var til aðalfundar og boðið uppá fundinn í streymi. Það var hinsvegar tekið fram að þau sem væru í streymi gætu ekki greitt atkvæði á fundinum? Ha? Í okkar tæknivædda heimi? Ha? Þetta er félag sem leiðir alla forstöðumenn ríkisstofnana landsins? Ha? Í alvöru?

Hitt dæmið tengist unga fólkinu okkar. Ein háskólastofnun hér á landi stefnir uþb 400 nemendum af landinu öllu til sín til að taka inntökupróf á hverju vori – sem stendur í tvo daga. Þetta þýðir að fólk utan höfuðborgarsvæðisins þarf að bera kostnað af ferðalagi og gistingu, og jafnframt þarf það að búa við lakari aðstæður en þau sem búa á höfuðborgarsvæðinu sjálfu. Það skondna við þetta er að prófið er rafrænt! Það er ekkert vandamál að koma slíkri framkvæmd á utan höfuðborgarsvæðisins – gæti reglan t.d. verið að allir gætu komist á prófstað á innan við 90 mínútna akstri? Háskólinn á Akureyri er með yfir 80 prófstaði hérlendis og erlendis á þessu vormisseri.

Þetta eru bara tvö lítil dæmi en endurspegla mjög vel upplifun mína af samskiptum við stjórnkerfið á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin 10 ár. Ísland á betra skilið.

Kæru kandídatar og gestir.

Þessu viljum við breyta og þið, kandídatar góðir, verðið í forystusveit atvinnulífs og opinberra stofnana á komandi árum. Þið munuð geta breytt þessu!
Að breyta heiminum og bæta hann er stöðug barátta og alls ekki alltaf auðveld og sjaldnast er hún sanngjörn. Lífið færir ykkur allskonar og við vitum ekki fyrr en á reynir úr hverju við erum gerð eða hvernig við bregðumst við áföllum. Það átakanlegasta í mínu daglega starfi hefur verið þegar við höfum misst starfsfólk langt fyrir aldur fram, í blóma lífsins, fólk sem allt setti mark sitt á skólann okkar. Þessara einstaklinga minnist ég með söknuði. Og ykkar barátta, ágætu kandídatar, hefur verið allskonar og það hefur tekist og hingað eruð þið komin.

Því miður varð það ekki svo fyrir ykkur öll í þessum árgangi.

Eiríkur Örn Jónsson hóf nám í lögreglufræðum haustið 2022 ásamt sambýliskonu sinni, Svandísi Ernu Þórðardóttur, sem í dag brautskráist sem lögreglumaður. Eiríkur Örn lést þann 7. febrúar eftir umferðarslys sem varð í janúar síðastliðnum.

Síðustu ár hafið þið unnið í sameiningu að markmiðum ykkar og námi. Eftir sitja minningar um skemmtilega daga í námslotum og kannski aðeins erfiðari daga rétt fyrir skilafresti og í prófatíðum. Nú gleðjumst við yfir því ánægjulega ferðalagi sem hefur leitt ykkur til þeirrar uppskeruhátíðar sem haldin er hér í dag.

Fyrir hönd Háskólans á Akureyri, votta ég sambýliskonu Eiríks, börnum hans, foreldrum, systkinum og kandídötum í lögreglufræðum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Foreldrar Eiríks, ásamt bróður hans eru hér í dag til að minnast og gleðjast á fallegum degi.

Kæru kandídatar.

Áföllin beygja okkur en góðar minningar hjálpa okkur að brotna ekki. Minningin lifir svo lengi sem við lifum.

Kæru gestir nær og fjær,

Lífið er stundum stormur og eins við fengum að upplifa hér á norðurhluta landsins fyrr í mánuðinum er stundum von á snjó að sumri – og síðan meiri snjó. En það stytti upp og í dag dásamlega fallegur dagur þar sem við getum fagnað saman og glaðst yfir því að þrátt fyrir áföll og erfiðar aðstæður þá kemur alltaf betri tíð.

Ágætu kandídatar.

Þið hafið lagt mikið á ykkur til að geta verið hér í dag en þetta er bara áfangi. Stutt hlé á vegferð lífs ykkar. Það er ástæða til að fagna og skemmta sér …. Í hófi ….. en líka tími til að hvílast og hugsa næstu skref. Þið hafið flest, ef ekki öll, stundað vinnu með námi ykkar. Þið eigið fjölskyldur og vini sem hafa stutt við ykkur og hjálpað ykkur í gegnum þessa áskorun – komið ykkur á þennan áfangastað.

Það er efni í aðra ræðu hvers vegna íslenskt samfélag leggur svo hart á ykkur að vinna með náminu. Við, kennarar ykkar og starfsfólk, vildum svo gjarnan óska þess að þið gætuð einbeitt ykkur að náminu öllum stundum. En ræðum það síðar. … Vegna þessa tvöfalda álags er ykkur kandídötum alger nauðsyn að hvílast nú vel og hugsa um eigin heilsu og hag. Að sinna ykkur sjálfum. Ég vil hvetja ykkur til þess að elska ykkur sjálf og taka ábyrgð á eigin líkamlegri og andlegri heilsu. Að elska sjálfan sig er öllum gott en það er ekki það sama og sjálfselska eða sú sjálfsdýrkun sem virðist tröllríða nútímanum. Þær ímyndir og fyrirmyndir sem þið sjáið í sjálfsdýrkun áhrifavalda á samfélagsmiðlum eða upphafningu hins veraldlega auðs á kostnað hins andlega er kannski stærsta ógnin sem við setjum fram fyrir ungt fólk í dag. Ég vil hvetja ykkur, kæru kandídatar, til þess að vera fyrirmynd fyrir ykkur sjálf – og þannig verða fyrirmynd fyrir aðra með því að sinna ykkur, sinna ykkar samfélagi og vera virkir þegnar í íslensku þjóðfélagi. Beitið þekkingu ykkar og færni til fulls ….. og breytið heiminum öllum til hins betra.

Ágætu gestir nær og fjær og kæru Kandídatar.

Þau eru mörg tækifærin til að breyta heiminum til hins betra. Og nú stöndum við frammi fyrir nýjum tímamótum fyrir alla jarðarbúa. Hvernig ætlum við að nýta gervigreindina til góðs? Það skiptir engu máli í hvaða geira þið munuð starfa. Það skiptir engu máli af hvaða fræðasviði þið eruð að fara að brautskrást hér í dag. Gervigreindin mun hafa áhrif á ykkur og störf ykkar – og þið munuð geta nýtt gervigreindina til góðs – og það verður hægt að nýta hana til illra verka. Það er okkar að greina þarna á milli. Sem dæmi um hvað sé hægt þá lék ég mér að því að láta gervigreind skrifa brautskráningarræðu fyrir HA þetta árið. Ég notaði hana ekki alla – en hér inni er málsgrein sem er algjörlega skrifuð af gervigreindinni, og á góðri íslensku! Ég mun jafnframt birta afrit af gervigreindarræðunni í heild sinni – svona til samanburðar. Bara þetta litla dæmi sýnir okkur að þessi bylting er hafin. Stóra spurningin er: Hvernig ætla háskólar landsins og heimsins að bregðast við? Og geta háskólastofnanir sem byggðar eru á aldagömlum hefðum og oft íhaldssamar í eðli sínu brugðist nógu vel og hratt við? Hver verður framtíð háskólanáms og mats á frammistöðu stúdenta? Þetta eru gríðarlega stórar spurningar sem verður spennandi að leita svara við en háskólasamfélagið verður að vinna hratt og örugglega í að finna viðeigandi lausnir. Ég er ekki sannfærður um að íslenskt háskólakerfi sé vel í stakk búið til að takast á við þessar breytingar.

Og þið, ágætu kandídatar, munuð þurfa að læra, í ykkar vinnu eða í frekara námi, hvernig þið ætlið að nýta þetta frábæra tæki – en fyrst og fremst að nýta það til góðs og stuðla þannig að betri heimi.

Kæru kandídatar.

Þegar við göngum hér í sameiningu út úr salnum á eftir þá göngum við öll, ég meðtalinn, í átt að nýjum tíma. Það eru tímamót í lífi okkar allra, nýjar áskoranir bíða okkar og tækifærin eru ótrúlega mörg og fjölbreytt. Fyrir mig persónulega þá má segja að ég hafi verið hér í 10 ára námi og lært mest um sjálfan mig og um fólk almennt. Það hafa verið mikil forréttindi og heiður að fá að vinna með því frábæra fólki sem starfar við Háskólann á Akureyri. Mig langar sérstaklega að þakka þögla meirihlutanum. Fólkinu sem hefur gengið til verka, sama á hverju gengur, með ástríðu og vilja til góðra verka fyrir fagið, fyrir háskólasamfélagið. Fólkið sem hefur haft metnað í að gera HA að þeirri mögnuðu háskólastofnun sem við erum í dag. Þið, ágæti þögli meirihluti, fáið einmitt minni athygli dags daglega en alla mína athygli hér í dag og munuð standa upp úr sem góðu minningarnar úr starfi mínu hér við HA.

Kæru kandídatar, það er nefnilega þannig að oft glymur hæst í tómri tunnu, þeir sem tala hátt og digurbarkalega hafa í raun lítið fram að færa og eru oftar en ekki að verja persónulega hagsmuni eða þrönga sérhagsmuni. Ég hef séð nóg af slíku í mínu starfi.

Ágætu kandídatar, ég hvet ykkur til að veita þögla meirihlutanum meiri athygli og hristið af ykkur hælbítana og einstaklingana sem koma bara með neikvæðni og leiðindi inn í ykkar daglega líf. Einbeitið ykkur að því að gera sjálf betur á hverjum degi og þakkið öðrum fyrir góð og vel unnin verk. Færið jákvæðni inní líf ykkar með því að vera sjálf jákvæð gagnvart umhverfinu. Þá munuð þið starfa við ánægjulegar aðstæður og eiga alla möguleika á að ná stórkostlegum árangri í lífi og starfi.

Starfsfólki Háskólans á Akureyri þakka ég fyrir samvinnunna síðastliðin 10 ár. Þá vil ég þakka sérstaklega þeim tæplega 4000 stúdentum sem hafa stundað nám við HA á starfstíma mínum fyrir að hafa valið HA til náms og þroska. Fulltrúum þessa fjölbreytta hóps, sem starfað hafa í stúdentaráði hvers árs, þakka ég kærlega fyrir góð og ánægjuleg samskipti í gegnum árin.

Kæru kandídatar – það eru tímamót. Göngum saman til móts við þessa nýju og áhugaverðu tíma með þekkinguna í fararbroddi við að gera góðan heim enn betri.

Ég þakka fyrir mig!

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó