Aukinn byggðajöfnuður

Aukinn byggðajöfnuður

Hilda Jana Gísladóttir og Eydís Ásbjörnsdóttir skrifa

Samfylkingin beitir sér markvisst fyrir auknum byggðajöfnuði og vill byggja upp sterka almannaþjónustu um allt land, ásamt öruggum samgöngum og fjarskiptum. Þannig nýtum við best fjölbreytt tækifæri til verðmætasköpunar, þannig að fólk hafi raunhæft val um ólíka búsetukosti. Í heimi hraðfara breytinga, sem eiga sér ekki síst stað vegna tækniframfara, sjáum við að þróunin er ekki aðeins sú að fólkið elti störfin, heldur elta sum störf fólkið þangað sem það vill búa.

Við mannfólkið erum sem betur fer ekki öll eins. Sumir kjósa að búa í iðandi mannlífi stórborga, aðrir kjósa að lifa í lítilli borg, sumir í stærri bæjum, aðrir í minni bæjum og enn aðrir í dreifbýli. Allir staðir hafa væntanlega sína kosti og galla. Á landsbyggðunum er oft rætt um þá kosti að búa í rólegu fjölskylduvænu umhverfi, þar sem húsnæðisverð er lægra, bílaumferðin minni og nálægð við náttúruna veiti ómælda ánægju. Við eigum það hins vegar öll sameiginlegt að telja það grundvallarforsendu búsetu okkar að þar séum við örugg og greitt aðgengi sé að menntun og heilbrigðisþjónustu. Samgöngur gegna algjöru lykilihlutverki þegar kemur að því að stuðla að auknum byggðajöfnuði. Nauðsynlegt er að horfa til þess að samgöngubætur eru aðgengismál og öryggismál, jarðgöng tryggja t.a.m. aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun, verslun og þjónustu, menningu, íþróttum og stærra atvinnusvæði.

Eitt af stærstu málum þessarar kosningabaráttu er að byggja upp betri heilbrigðisþjónustu fyrir okkur öll, óháð efnahag og búsetu og nú verður ekki lengur beðið eftir brýnum aðgerðum. Nauðsynlegt er að efla heilbrigðisþjónustu um land allt með ákvæðum um starfsaðstæður og kjör heilbrigðisstétta og fjárfestingu í tæknilausnum til fjarlækninga. Samfylkingin vill að greitt sé fyrir allan ferðakostnað innanlands vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu við fólk fjarri heimabyggð og ráðast í þjóðarátak í geðheilbrigðisþjónustu um land allt.

Samfylkingin hefur á stefnuskrá sinni fjölmörg mál sem tengjast auknum byggðajöfnuði. Sem dæmi má nefna að nauðsynlegt er að horfa til raunverulegrar dreifingu á ferðamönnum um land allt m.a. með uppbyggingu millilandaflugvalla á Akureyri og Egilsstöðum, uppbyggingu ferðamannastaða víða um land og markaðssetningu áfangastaða. Þá viljum við byggja nýsköpunarklasa í öllum helstu þéttbýliskjörnum, í samvinnu við heimafólk, þar sem frumkvöðlar, fyrirtæki og stofnanir fá aðstöðu og stuðning um allt land. Þá viljum við gera hjólreiðaáætlun fyrir allt Ísland og gera átak í lagningu hjólastíga um allt land.

Við hvetjum ykkur til þess að kynna ykkur stefnu Samfylkingarinnar: xs.is/stefnan og sérstakar áherslur flokksins í NA kjördæmi hér: https://xs.is/stefnuaherslur-nordaustur


Kaffið.is fylgist með Alþingiskosningunum í haust með áherslu á Norðausturkjördæmi. Finna má fleiri greinar og annað gagnlegt efni tengt kosningunum með því að smella hér.

Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó