Árið 2008 fékk ég ágætis spark í rassinn, ég eignaðist son. Var hann ágætis boost á þroska en á árunum 2007 til 2009 er vel hægt að álíta að ég hafi elst um svona sirka 10 ár. Hann er alveg að verða 9 ára, orðin algjör gaur og svo virðist sem hann eigi við sama vandamál og ég þau tíu ár sem ég var í grunnskóla, eitthvað með að þykja gott að standa upp og skoða sig um og spjalla. Elsku sonur, ég kann ekki lausnina svo mamma þín verður að sjá um það eins og svo margt annað. 😉
Árið 2011 kynntist ég síðan konu sem átti 2 börn ekkert óeðlilegt við það en það sem mér þótti skrítið var að þau fóru ekki í pabbahelgar. Fljótt komst ég að ástæðunni og varð það að verkefni mínu eins og annara í þessari nýju fjölskyldu að lækna sárin og höfnunina sem komin voru vegna þessa. Svona ári áður en ég kom til sögunnar hafði faðirinn beðið um að þurfa ekki að taka stelpuna, líka fædd 2008, sem þá var 2 ára. Hverjar ástæðurnar voru er seint hægt að vita nákvæmlega en hann átti nýja konu og nokkur fósturbörn svo það er alveg líkleg ástæða þó hún sé léleg og ég viti í raun ekki hvort það tengist.
Hraðspólum svo þar sem þau hittu hann 1-2 á ári fyrst og síðan ekkert. Við létum vita þegar krakkarnir voru í sama bæjarfélagi og faðirinn en það gerðist lítið. Strákurinn, fæddur 2003 lenti oftar í því að vita af því að karlinn ætlaði á kíkja á júdómót eða það stóð til hittingur og svo sást hann ekki. Fljótt varð öll svona skipulagning gerð í laumi til þess að hlífa krökkunum og sleppa þeirri höfnun sem kom þegar það tókst ekki.
Það var mikið reynt, þau fóru yfir áramót einu sinni og var skilað nokkrum dögum á undan áætlun. Þau hittust hérna á Akureyri og fóru í sund, fengu ís og þannig. Sýslumaður reyndi að hjálpa, við reyndum virkilega.
Síðan líða árin ég bý með þeim og geng þeim algjörlega í föðurstað. 2013 eignast ég dóttur. Hún er þarna mætt og er hálfsystir sonar míns og fósturbarna minna. Áfram heldur lífið, við reynum að búa til samskipti við föður krakkana. Stingum uppá hlutum, hvetjum til Skype samtala og lengi mætti áfram telja. Lítið sem ekkert gerðist.
Skólayfirvöld, sálfræðingar, geðlæknar, fjölskylduráðgjafar og sýslumaður hjálpuðu okkur að finna lausnir, gefa ráð og reyna að verja börnin fyrir fylgikvillum svona aðstæðna en samt finna útúr þessu.
2014 skilja síðan leiðir hjá mér og mömmu barnanna en ég tek ákvörðun um að sú gjöf sem ég get gefið börnunum mínum fjórum sé að þau muni þekkja hvort annað áfram og alast upp sem systkini sama hvað blóð þeirra segir til um.
Frá þessari stundu hef ég fengið til mín 4 börn í einu í pabbahelgar, heimsóknir og pabbadaga.
Vorið 2015 byrjuðu umræður að nýju við föður krakkana. Ég og barnsmóðir mín ákváðum að við myndum láta eftir eina helgi í mánuði til skiptis þannig að krakkarnir gætu hitt manninn 1 sinni í mánuði að minnsta kosti. Ég hef oft verið í samskiptum við hann svo ég sting uppá þessu og býðst til þess að keyra krakkana til hans á Hornafjörð, en hann bjó áður á höfuðborgarsvæðinu, finna mér stað til að vera yfir helgina og taka þau með mér til baka. Þá stingur hann uppá því að þetta verði frekar skipulagt og gert í gegnum sýslumann þar sem hann fer fram á umgengni. Það er síðan gert. Fjölskylduráðgjafi tekur viðtöl við alla og stungið uppá sátt sem var hafnað af föður og þá fór þetta í úrskurð þar sem þetta er bara ákveðið.
Þar var borið fram skipulag út frá niðurstöðunum sem hljóðar uppá eina helgi annan hvern mánuð allan veturinn til aðlögunar. Átti að byrja í september 2016 og þegar fór að nálgast daginn spurðum við föðurinn hvort þetta yrði að veruleika uppá það að skipuleggja tímann og undirbúa krakkana. Hann sagði að hann gæti ekki í þetta skiptið svo helgi númer eitt datt upp fyrir. Sama sagan var með næstu sem átti að vera í nóvember og svo koll af kolli. Núna er febrúar og ekkert heyrst eða gerst með það sem átti að gerast í janúar né það sem er framundan í mars.
Eins og mér finnst hræðilegt þegar feður meiga ekki sjá börnin sín þá finnst mér það óskiljanlegt þegar þeir vilja það ekki.
Síðan er ótrúlegt hversu þolinmóð og þrautseig móðir barnanna hefur verið í gegnum þetta allt. Því þetta er ekki auðvelt og hún hefur verið alveg ótrúleg.
Afhverju er ég að skrifa þetta?
Þetta er ekki leyndarmál og ég vil bara að fólk sem veltir þessari stöðu minni fyrir sér viti hvernig þetta kom til. Ég græddi bara 2 auka börn og er þannig ríkari en ella!
UMMÆLI