NTC

Átta keppendur SA lentu á verðlaunapalli um helgina

Stúlkurnar frá SA sigruðu Advanced Novice flokkinn og röðuðu sér í fyrstu fjögur sætin.

Skautafélag Akureyrar hefur lengi vel verið sigurstranglegasta félagið í Listhlaupinu hérlendis en þrátt fyrir smæð félagsins leynast þar margir sterkir keppendur. Um helgina fór fram Haustmót ÍSS sem haldið var í Egilshöllinni.
15 keppendur kepptu á mótinu frá Skautafélagi Akureyrar en átta þeirra lentu á verðlaunapalli.

Besti árangurinn verður þó að teljast vera í Advanced Novice flokknum þar sem SA átti fjóra keppendur. Þessi keppnisflokkur er klárlega sá samkeppnisharðasti en dömurnar frá Akureyri röðuðu sér í fyrstu fjögur sætin. Marta María Jóhannsdóttir hreppti fyrsta sætið með talsverðum yfirburðum, eða 78,89 stig. Í öðru sæti varð Rebekka Rós með nýju persónulegu stigameti, eða 74.27 stig, þriðja varð Aldís Kara með 71.04 stig og fjórða varð Ásdís Arna með 69.08 stig. Þess má geta að þær  náðu allar fjórar viðmiðum fyrir Úrvalshóp Skautasambands Íslands og koma því til með að keppa fyrir Íslandshönd á erlendum mótum.

Í Basic Novice A, sem er næsti keppnisflokkur fyrir neðan fyrir með yngri keppendur, hafnaði Júlía Rós í 2. sæti með 26,53 stig.
Í Cubs, sem er enn þá yngri keppnisflokkur, voru fjórir keppendur frá SA. Freydís Jóna Jing sigraði flokkinn á persónulegu stigameti 32,54 stig og Katrín Sól fylgdi fast á eftir í annað sætið með 31,17 stig.

Chicks keppnisflokkurinn er sá yngsti og þar átti SA þrjá keppendur. Sædís Heba sigraði flokkinn með 23,15 stig og Indíana Rós hreppti þriðja sætið með 18,66 stig.

Skautafélagi Akureyrar gekk sannarlega vel á þessu fyrsta móti vetrarins í Höfuðborginni, þrennum gullverðlaunum, þrennum silfurverðlaunum og tveimur bronsverðlaunum ríkari. Það verður spennandi að fylgjast með þessum duglegum keppendum í vetur.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó