NTC

„Ástríðufullt fólk með skýra framtíðarsýn“

„Ástríðufullt fólk með skýra framtíðarsýn“

Níu flokkar bjóða fram í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri sem fara fram 14. maí næstkomandi. Á næstu dögum munu oddvitar flokkanna segja frá helstu stefnumálum á Kaffið.is ásamt því að svara spurningum um ákveðin hitamál úr bæjarmálaumræðunni undanfarin ár.

Hér að neðan má sjá svör Hildu Jönu Gísladóttur, oddvita Samfylkingarinnar.

Meira: Snorri Ásmundsson – Kattaframboðið


Hver eru ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar?

Okkar stefnumál byggja á aðgerðum sem styðja við okkar skýru framtíðarsýn. Við viljum byggja skemmtilega og fjölskylduvæna svæðisborg þar sem áhersla er lögð á jöfn tækifæri, lífskjör og mannréttindi allra. Við viljum skapa samfélag sem er í fremstu röð í umhverfis- og loftslagsmálum. Samfélag sem stendur sérstakan vörð um viðkvæmustu hópana. Samfélag þar sem fræðslu- og velferðarmál er okkar trausti grunnur. Við ætlum að vera í sóknarhug og leggja áherslu á að skapa fjölbreytt og líflegt samfélag sem er eftirsóknarvert fyrir atvinnulíf, til búsetu og heimsókna til skemmri eða lengri tíma, fyrir okkur öll.

Hvaða aðgerðir stefnið þið á ef þið komist að í bæjarstjórn?

Dæmi um aðgerðir og áherslur:

· Tryggjum öllum börnum pláss á leikskóla eða hjá dagforeldri frá 12 mánaða aldri. Lækkum í kjölfarið leikskólagjöld

· Hækkum frístundastyrk barna í 50 þúsund krónur

· Frítt í sund fyrir eldra fólk. Bjóðum upp á frístundastyrk fyrir þann hóp og verðum aldursvænt samfélag

· Förum í aðgerðir til að útrýma sárafátækt

· Tryggjum nægilegt framboð félagslegra leiguíbúða á vegum sveitarfélagsins og vinnum markvisst í að stytta biðlista

· Bætum leiðakerfi strætó og gerum að eftirsóknarverðum samgöngumáta

· Verum framúrskarandi sveitarfélag í umhverfis- og loftslagsmálum

· Gerum húsnæðisáætlun og tryggjum öllum íbúum húsnæði við hæfi

· Ljúkum uppbyggingu á KA svæðinu, byggjum þjónustuhús í Hlíðarfjalli og vetraraðstöðu Golfklúbbs Akureyrar að Jaðri, kaupum færanlegt gólf til að auka möguleika á nýtingu Bogans til fjölbreyttra íþrótta- og menningarviðburða

· Hækkum framlög í menningarsjóð og leggjum áherslu á grasrót listafólks

· Byggjum upp vistvænan miðbæ, fjölbreytta byggð á tjaldsvæðisreitnum og sköpum lifandi og mannvænt umhverfi á Akureyrarvelli

· Skipuleggjum bæinn okkar með metnað, fagmennsku, umhverfið, loftslagsmál, vellíðan og söguna að leiðarljósi

· Tryggjum að þjónusta sveitarfélagsins taki tillit til þarfa atvinnulífsins

· Stöndum vörð um og eflum faglegt starf og starfsaðstæður í leik- og grunnskólum í samráði við starfsfólk

· Leggjum áherslu á ábyrgan rekstur og grænar fjárfestingar. Höldum áfram að auka tekjur og að skapa fjárhagslega sjálfbært sveitarfélag til framtíðar

Stefnu Samfylkingarinnar á Akureyri 2022 í heild sinni má sjá á xs.is/akureyri

Hver er stefna ykkar þegar kemur að lausagöngu katta?

Við erum hlynnt frjálsri útiveru hjá kisum. Þá viljum við að farið verði eins fljótt og auðið er í samstarf um rekstur dýraathvarfs í heppilegu húsnæði, enda um að ræða þarfa þjónustu er varðar skyldur sveitarfélagsins.

Hver er ykkar stefna í skipulagsmálum á Akureyri?

Samfylkingin á Akureyri ætlar að vanda til verka í skipulagsmálum á næsta kjörtímabili og hlusta á raddir og skoðanir bæjarbúa. Við ætlum að skipuleggja bæinn okkar með metnað, fagmennsku, umhverfið, loftslagsmál, vellíðan og söguna að leiðarljósi. Okkar stefna er sú að skipulagsmál taki mið af því að tryggja öllum íbúum húsnæði og þjónustu við hæfi með sérstaka áherslu á aldraða og ungt fólk. Við ætlum að stuðla að stöðugu lóðaframboði og jafnræði við úthlutun lóða og við munum standa vörð um yfirbragð eldri byggðar bæjarins. Við viljum byggja upp á Oddeyrinni í samræmi við samþykkt rammaskipulag Oddeyrar þannig að framtíðarbyggð þróist þar í sátt íbúa og taki mið af staðaranda og sögu svæðisins. Um Tónatröð höfum við verið alveg skýr og höfum bókað andstöðu okkar ítrekað við lóðaúthlutunarferlið í tengslum við það verkefni sem er þar í gangi núna.

Hver er stefna ykkar í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri?

Við viljum fylgja þeirri stefnu sem allir flokkar í bæjarstjórn hafa nú þegar samþykkt. Nú þegar höfum við byggt nýtt aðstöðuhús fyrir siglingaklúbbinn Nökkva, framkvæmdir við mikilvægar endurbætur í Skautahöllinni eru komnar af stað sem og uppbygging á KA svæðinu. Við viljum á kjörtímabilinu klára uppbyggingu á KA svæðinu með metnaðarfullum hætti, byggja þjónustuhús í Hlíðarfjalli og leggja sérstaka áherslu á uppbyggingu Hlíðarfjalls sem heilsárs útivistarparadísar og byggja vetraraðstöðu Golfklúbbs Akureyrar að Jaðri. Næstu verkefni í forgangsröðun í uppbyggingu íþróttamannvirkja eru svo uppbygging 50 m keppnissundlaugar og fjölbreytt uppbygging á félagssvæði Þórs. Þá viljum við kaupa gólf sem hægt er að nýta í Boganum, tímabundið yfir gervigrasið, fyrir fjölbreytta viðburði til að auka fjölbreytta notkun Bogans.

Hver er stefna ykkar í umhverfismálum á Akureyri?

Akureyrarbær hefur í gegn um tíðina rutt brautina fyrir önnur sveitarfélög á landinu á sviði umhverfismála. Við viljum að Akureyrarbær haldi áfram á þeirri braut og festi sig í sessi sem sveitarfélag í fremstu röð í umhverfis- og loftslagsmálum hér á landi og stuðli að því að þau sem hér búa og starfa geti lifað og starfað í sátt við umhverfi og loftslag. Við viljum leggja áherslu á að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu, leggj grunn að nauðsynlegum orkuskiptum og hætta að sætta okkur við að svifryksmengun fari yfir heilsuverndarmörk. Við viljum taka upp samgöngustyrki til starfsfólks Akureyrarbæjar sem nýtir vistvæna samgöngumáta til að ferðast til og frá vinnu, bæta leiðarkerfi strætó og gera hann að eftirsóknarverðum samgöngumáta. Við viljum setja fullan þunga í uppbyggingu hjóla- og göngustíga, taka þátt í verkefnunu „græn skref“. Kanna til hlýtar kosti þess að koma á laggirnar líforkuveri og breytum úrgangi í verðmæti, vera áfram í fremstu röð í úrgangs- og sorpmálum. Leggja áherslu á fræðslu um umhverfis- og loftslagsmál og styðja áfram við starfsemi Eims og Vistorku. Þá leggjum við áherslu á að skapa aðstæður sem gerir fólki kleift að nýta aðra samgöngumáta til jafns við einkabílinn

Hver er stefna ykkar þegar að kemur að göngugötunni í miðbænum?

Að göngugatan verði göngugata!

Hver er stefna ykkar þegar kemur að sölu áfengis í Hlíðarfjalli?

Um þetta mál eru skiptar skoðanir innan flokksins, rétt eins og meðal bæjarbúa. Við samþykktum þetta á sínum tíma en teljum eðlilegt að skoða framkvæmdina vel og taka málið upp aftur ef sú skoðun sýnir fram á ástæðu til þess.

Af hverju ættu Akureyringar að kjósa flokkinn?

Frambjóðendur okkar er ástríðufullt fólk með skýra framtíðarsýn og aðgerðir sem við viljum fara í til að gera þá framtíðarsýn að veruleika. Það er sóknarhugur í okkur, við erum yfirmáta bjartsýn og full eldmóðs að gera betur fyrir okkur öll, ekki síst þau sem standa höllum fæti í samfélaginu. Frambjóðendur okkar búa yfir reynslu af störfum í sveitarstjórn í bland við nýja frambjóðendur sem svo sannarlega eru með uppbrettar ermar og reiðubúin að leggja sitt af mörkum til að gera gott samfélag betra.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó