NTC

Ásta Soffía leikur á sumartónleikum í Akureyrarkirkju

Ásta Soffía Þorgeirsdóttir.
Mynd: Daníel Starrason

Sumartónleikar í Akureyrarkirkju fara fram alla sunnudaga í júlímánuði og er aðgangur ókeypis.

Tónleikaröðin fagnar í ár 30 ára starfsafmæli og er næst elsta tónleikaröð landsins. Á öðrum tónleikum sumarsins kemur fram 21 árs gamall harmóníkuleikari, Ásta Soffía

Þorgeirsdóttir. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ásta getið sér gott orð fyrir leik sinn. Á tónleikunum flytur hún verk eftir tónskáld á borð við Bach, Grieg, Þorkel Sigurbjörnsson og Piazzolla.

Ásta Soffía Þorgeirsdóttir hóf nám í harmóníkuleik við Tónlistarskóla Húsavíkur 8 ára gömul og lærði undir handleiðslu Árna Sigurbjarnarsonar til 16 ára aldurs. Þá lá leið hennar í Menntaskólann við Hamrahlíð og fyrsta veturinn í Reykjavík stundaði Ásta Soffía tónlistarnám við Tónlistarskóla FÍH. Næstu tvo vetur nam hún við Listaháskóla Íslands og lauk þaðan diplómagráðu í hljóðfæraleik vorið 2014 auk stúdentsprófs frá Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Kennari hennar í Reykjavík var German Khlopin. Ásta stundar nú Bachelornám í klassískum hljóðfæraleik við Tónlistarsháskólann í Ósló undir handleiðslu Erik Bergene og Frode Haltli. Aðspurð um hvað hafi borið hæst í tónlistarflutningi síðustu mánuði segir Ásta að það hafi verið mjög eftirminnilegt að spila í forsetaheimsókn Forseta Íslands í Ósló í mars síðast liðnum. “Ég spilaði fyrir fullum sal gesta, þar á meðal Harald konung, Sonju drottningu og Guðna Th. Jóhannesson forseta. Það var ógleymanlegt”.

Styrktaraðilar tónleikaraðarinnar eru Sóknarnefnd Akureyrarkirkju, Héraðssjóður Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis, Menningarsjóður Akureyrar og Tónlistarsjóður.

Tónleikarnir eru hluti af Listasumri á Akureyri.

VG

UMMÆLI

Sambíó