NTC

Áslaug Arna heimsótti Samherja á Dalvík

Áslaug Arna heimsótti Samherja á Dalvík

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmála flutti skrifstofu sína til Dalvíkur í einn dag nú í gær og kynnti sér starfsemi ýmissa fyrirtækja og stofnana, þar á meðal vinnsluhús Samherja.

Vinnslan hefur verið starfandi í fjögur ár í húsinu og er áberandi hve mikið er af íslenskum hugbúnað og vélum innan veggja starfstöðvarinnar. Athygli erlendra fyrirtækja hefur beinst að vinnsluhúsinu og verið vinsælt að senda fulltrúa sína þangað.

Mynd/samherji.is

Á vefsíðu Samherja kemur fram að Áslaugu hafi þótt ánægjulegt að sjá hversu fullkomnar íslenskar tæknilausnir séu og segir hún einnig þar:

„Tæknin í húsinu er gríðarlega fjölbreytt og augljóst er að íslenskur sjávarútvegur stendur vel að vígi þegar horft er til nýsköpunar og tækniþróunar, sem er lykilatriði í atvinnugrein sem keppir á alþjóðlegum og kröfuhörðum mörkuðum. Hér er hátækni á heimsmælikvarða. Á undanförnum árum hafa litið dagsins ljós fjölmörg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem byggja starfsemi sína að mestu á útflutningi eftir að hafa unnið náið með íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum að þróun afurðanna, meðal annars Samherja. Sjávarútvegurinn er með öðrum orðum á margan hátt aflvaki framfara í íslensku hagkerfi og vinnsluhúsið á Dalvík er skýrt dæmi um það.“

Áslaug Arna fer sömuleiðis með málefni háskóla landsins. Hún segir að aukin tækni kalli á sérmenntað starfsfólk.

„Já, klárlega. Háskólinn á Akureyri hefur um langt árabil átt samstarf við sjávarútveginn, eins og Samherja en skólinn útskrifar meðal annars sjávarútvegsfræðinga og margir þeirra starfa hjá Samherja. Íslenskur sjávarútvegur er spennandi alþjóðleg atvinnugrein og vinnslan hér á Dalvík sýnir glöggt framsæknina og af hverju við erum fremst meðal þjóða í samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Sambíó

UMMÆLI