Umrædda spurningu þekkjum við öll. Hana heyrum við þegar líða fer að páska-, sumar- og jólafríum.
Spurningin er að vissu leiti gildishlaðin, þar sem hún vísar í það að þú ættir að vera með plön, þú ættir að vera að gera eitthvað í fríinu þínu.
Rannsókn sem gerð var á kennurum sýndi að þeir eru ekki að koma úthvíldir til starfa að sumarfríi loknu. Mér persónulega þykir afar líklegt að þetta eigi við um fleiri starfsstéttir og einstaklinga.
En maður spyr sig, hvers vegna er fólk svona þreytt og streitt þegar það kemur til starfa að hausti?
Ég hvet þig til að huga að daghvíld í sumarfríinu þínu og skoðaðu um leið hver það er sem setur kröfurnar um grillpartýið, mála húsið, smíða pallinn, bústaðarferðir o.s.frv?
Nú er ég alls ekki að ýja að því að þú ættir að liggja í fósturstellingu í allt sumar, en mundu að allt það skemmtilega kann einnig að vera streituvaldandi.
Ef þú finnur fyrir gleði og ríkri þörf í tengslum við einhver af þínum plönum, gættu þess þá að njóta hverrar stundar í núvitund. Ekki fara í verkefnið til þess að taka mynd fyrir samfélagsmiðla, ekki til þess að ganga í augun á einhverjum, ekki til að sýnast hafa plön í fríinu og alls ekki af nokkurskonar kvöð. Fagnaðu verklokum og klappaðu þér á öxlina fyrir að leyfa þér að slaka á í fríinu þínu. Þú ert jú í fríi.
Gott er að stilla á sjálfvirka svörun á tölvupóstinn og setja sér það að opna hann ekki fyrr en að fríi loknu. Vertu í nærandi félagsskap, lestu góða bók, hlustaðu á podcast, hreyfðu þig hóflega og einblíndu á endurnærandi stundir. Spurðu fólk heldur að því hvernig það sér fyrir sér að hlaða sig í sumar? Við hlaupum jú til þegar símarnir og tölvurnar verða tæpar af straumi, en hvað gerum við þegar orkubankinn okkar tæmist?
,,Leggur ekkert inn – tekur bara út“ eins og Gleðibankinn hinn margrómaði söng svo eftirminnilega.
Ef þú hefur þörf fyrir að skipuleggja og plana sumarfríið, skrifaðu þá niður atriði sem þú veist að munu næra þig og veita þér hleðslu.
Það er í góðu lagi að hafa ekki plön og lofa lífinu bara að flæða. Oft koma bestu stundirnar í kjölfarið af fríi sem innihélt dass af daghvíld, núvitund og þakklæti.
Vittu til að þegar líða fer undir lok sumarfrísins, þá munt þú finna þörf fyrir rútínuna.
Eigðu yndislegt og endurnærandi sumarfrí
Helga Hrönn Óladóttir, umdæmisstjóri Streituskólans og Streitumóttökunnar á Norðurlandi
UMMÆLI