Fjöldi kennara í Menntaskólanum, Verkmenntaskólanum og Tónlistarskólanum á Akureyri er á leið í ótímabundið verkfall á föstudaginn ef ekki semst fyrir þann tíma. Af því tilefni hafa félagsmenn KÍ í þessum þremur skólum sent frá sér eftirfarandi ályktun:
Við skorum á samninganefndir ríkis og sveitarfélaga að standa við gefin loforð og efna samkomulagið frá 2016 um að jafna laun á milli markaða.
Við skorum á ráðamenn að efna gefin fyrirheit um að kennarastarfið verði metið að verðleikum og að launakjör okkar verði leiðrétt.
Við skorum á „valkyrjur og kryddpíur“, Samband íslenskra sveitarfélaga, bæjarstjórn Akureyrar og þingmenn að leita lausna til að semja við kennara.
Við treystum samninganefnd KÍ og hörmum að ekkert bólar á efndum þrátt fyrir að samninganefnd KÍ sé búin að leggja fram lausnir og tillögur að úrbótum.
Fjárfestum í kennurum og fjárfestum í menntun.
Orð skulu standa!