Áskorun á atvinnurekendur

Áskorun á atvinnurekendur

Við uppgang og útbreiðslu Covid-19 veirunnar um heiminn, hefur staðan og horfur í efnahagsmálum versnað mikið á Íslandi. Það á sérstaklega við um ferðaþjónustuna og veitingargeirann.  Íslenskir skattgreiðendur hafa lagst á árarnar með fyrirtækjum sem hafa farið illa út úr þessu ástandi, en því ber að fagna að rekstur meirihluta fyrirtækja á landinu virðist ganga vel.

Í aðdraganda kjarasamningagerð aðildarfélaga ASÍ og SA, sem gerðir voru vorið 2019 undir heitinu lífskjarasamningar, voru blikur á lofti í ferðaþjónustu- og flugbransanum.  Þegar samningaviðræður stóðu sem hæst þá var það öllum ljóst sem við samningaborðið sátu að árin 2019 og 2020 yrðu slæm ár fyrir ferðaþjónustuna.  Öllum varð það líka ljóst að fyrir því væru margþættar ástæður sem erfitt væri að mæta með einföldum aðgerðum.  Til að bæta gráu ofan í svart varð WOW Air gjaldþrota og sú staða bættist inn í myndina og hafði eðli málsins samkvæmt mikil áhrif á samningagerðina.  Báðum samningsaðilum varð það ljóst að nauðsynlega þyrfti að gera hóflega kjarasamninga með sérstaka áherslu á kjarabætur til tekjulágs launafólks  og stuðla að vaxtalækkun sem gagnast heimilunum og atvinnulífinu einkar vel.  Þar sem samningsaðilar voru sammála um að launhækkanir á samningstímanum væru hófstilltar var settur inn hagvaxtarauki til að  tryggja hlut launamanna í verðmætasköpun þjóðarinnar.

Eins og málin hafa þróast þá eru ekki miklar líkur á að hagvaxtarauki komi til með að hækka laun á samningstímanum og því ljóst að krónutöluhækkun verði eina hækkunin sem komi til með að hækka laun.  Í dag eru dagvinnulaun afgreiðslufólks í verslun eftir 5 ára starf hjá sama atvinnurekanda 332.530 kr. og ef samningum verður ekki sagt upp af hálfu SA þá munu laun hækka um 24.000 kr. þann 1. janúar 2021.  Dagvinnulaun afgreiðslufólks í verslun eftir 5 ára starf hjá sama atvinnurekanda fara í 356.530 kr. Ég fæ ekki séð hvernig SA eða Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra geta með nokkru móti ætlast til þess að okkar félagsmenn á þessum launum taka á sig launaskerðingu. Ég skora á atvinnurekendur að standa við kjarasamninginn.

Eiður Stefánsson formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni.   

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó