Áskorun!

Inga Dagný Eydal skrifar:

Já nú skall á okkur janúar enn eitt sinnið og með þessum mánuði (og nýju ári) dynur á okkur enn eitt skilaboðaflóðið. Nú er að því virðist, enginn lengur að spá í jesúbarnið, fögnuð og frið eða neitt í þeim dúr lengur enda kláruðust Ikea jólin daginn sem bolludagsbollurnar fóru á tilboð og heiðnu jólin fuðruðu upp með álfunum á þrettándanum og kristnu jólin….gengu jafnvel yfir með messunni á aðfangadag..

Nei þessi skilaboð fjalla um áskoranir. Nú eigum vér syndumspillt og sykursukkandi að taka á honum stóra okkar og hefja nýjan lífsstíl.

Áskoranirnar eru eins fjölbreyttar og þær eru margar. Margar þeirra fjalla um mataræði, „hreint fæði”, „plöntumiðað fæði” og svo auðvitað sykurlaust fæði, kjötlaust fæði, glútenlaust fæði og svo mætti endalaust telja. Þetta miðar að því mér sýnist, mest að því að bæta orku, verða sterk stelpa/strákur eða eitthvað slíkt þar sem það er jú eiginlega ekki í tísku að tala um megrun eða þyngdartap.

Svo eru það áskoranir um líkamsrækt, áskoranir um að æfa armbeygjur, upphífingar, cross fit og ýmislegt sem ég kann engin skil á enda skussi í alvöru líkamsrækt (og efast um að gönguferðirnar með hundinn þyki mjög merkileg áskorun).

Síðast en ekki síst eru það svo sjálfshjálparáskoranir sem snúast um að ná markmiðum, stefna hærra og lengra og bæta sig sem manneskju. Hljómar í mínum huga svolítið svipað og líkamsræktaráskorunin, þar sem lögð er áhersla á að beita mætti viljans til að stefna hærra í lífinu, starfi og einkalífi.

Allt er þetta hið þarfasta mál í hugum okkar sem höfum samviskubit af því að borða of mikið um jólin af mat sem okkur er óhollur ásamt því að sofa meira en venjulega og gera minna….en minna af hverju? Erum við ekki einmitt að gera meira af því sem er okkur svo gott? Í desember erum við meira með vinum og fjölskyldu, við förum oftar á tónleika, við njótum meira. Og það er gott og enginn þarf að hafa samviskubit yfir því. Vissulega sofum við meira en venjulega, en flest þurfum við sárlega á því að halda að hvíla okkur og sofa.

Okkur er nefnilega talin trú um það af sömu neysluöflum sem reyna svo ákaft að selja okkur jólin að við höfum á allan hátt staðið okkur illa og við þurfum að standa okkur betur. Að loknum jólum sé kominn tími til að bæta úr öllu því sem gladdi okkur um jólin. Strax í janúar og borga það dýrum dómum en sem betur fer er hægt að dreifa greiðslunum!

Og við þjökuð af samviskubiti sem vandlega er plantað í okkur, bítum á agnið. En er kannski málið að kaupa ekki öfgarnar strax heldur skoða aðeins málin. Vissulega er ekki hollasti maturinn á borðum um jólin. Við þurfum hinsvegar alls ekki að borða óhollt alla dagana í desember og við getum stungið afgangnum af konfektinu í frysti og skellt okkur í hafragrautinn á morgnana. Notað svo janúar til að prófa alla indversku og austurlensku réttina, baka gómsæt gróf brauð og góðar súpur og halda áfram að njóta,- bara að njóta þess að borða hollan og fjölbreyttan mat. Ekki „hreinan” eða „lausan þetta og hitt” heldur fyrst og fremst fjölbreyttan. Við getum gengið úti þegar viðrar, skellt okkur í sund, dansað á stofugólfinu, gert jógaæfingar heima, stundað djúpöndun- þetta sem kostar lítið nú eða stundað þá líkamsrækt sem við erum vön og höfum gaman af. Það þurfa ekki að vera áskoranir.

Svo er þetta með að bæta sjálfan sig. Fáu trúum við frekar en því þegar okkur er sagt að við séum ekki nógu góð. Dugnaður er jú þjóðaríþrótt og metnaður til að stefna hærra, vera duglegri, kraftmeiri er það sem okkur mörgum finnst skorta í lífið. Það getur vissulega átt við einhverja þarna úti og þeir geta sannarlega sótt sér aðstoð til að bæta úr því. Ég held hinsvegar að langflest okkar séu alveg nógu góð og eiginlega miklu frábærari en við höldum. Þegar grannt er skoðað þá er kannski stærsti ágallinn okkar sá hversu ósátt við erum við okkur sjálf og það gerir okkur döpur og þunglynd. Hvað ef við lítum betur inn á við og sjáum hvaða frábæru, ófullkomnu og dásamlegu manneskju við höfum að geyma? Hvað ef við leyfum þessari manneskju að vera besta útgáfan af sjálfri sér og gleðjast yfir því að vera nákvæmlega sú sem hún er? Hlúum að henni á nýju ári, gefum henni ráðrúm til að finna út hvað gleður hana og nærir?

Kannski þarf þá minna að selja okkur af áskorunum. Í að minnsta er von til þess að við kaupum það sem við þurfum sjálf á að halda en ekki það sem okkur er sagt að við þurfum.

Þetta er mín áskorun í janúar og það sem meira er,- hún er alveg ókeypis!

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

UMMÆLI