Ásgeir Ólafsson Lie, markþjálfi og ráðgjafi á Akureyri, hefur auglýst eftir 11 einstaklingum fyrir nýtt framboð, Nýtt upphaf. Í tilkynningu segir að 11 einstaklingum bjóðist að taka þátt í einhverju sem aldrei áður hefur verið framkvæmt á Íslandi.
„Nýtt Upphaf er nýr og ferskur andblær í komandi sveitarstjórnarkosningar sem haldnar verða á Akureyri árið 2026. Við erum byrjuð að leita að fólki,“ segir í tilkynningunni.
„Nýtt Upphaf er ekki flokkur. Það er skráð framboð sem er ekkert annað en lítið millistykki fyrir fólk sem langar að fara fram af eigin verðleikum. Hver umsækjandi setur fram sína stefnu og sín loforð um vinnu. Stefnu sem hver og einn ætlar að vinna með og lofar að leggja vinnu við sitt kjörtímabil. Loforð og stefnu sem enginn flokkur segir hann þurfa að styðja. Engin flokksvinna. Engin flokkakosning. Ekkert samráð. Ekkert flokkapot. Engin pólítík. Nýtt Upphaf mun halda vel utan um hópinn sinn og minna meðlimi sína ávallt á að taka sjálfstæðar ákvarðanir.“
Ásgeir, sem var á lista Kattaframboðsins í síðastliðnum sveitarstjórnarkosningum á Akureyri, segir að hugmyndin um Nýtt upphaf hafi lengi verið í bígerð.
„Það tekur tíma að finna fólk á listann og í framboð. Fólkið þarf að fá sinn tíma að vinna sín stefnumál. Það tekur líka tíma að kynna eitthvað nýtt sem hefur aldrei verið gert áður fyrir kjósendum og almenningi. Það er okkar tilfinning að það sé eftirspurn fyrir nýju fólki og nýjum nálgunum í kosningum. Fleiri tækifærum. Það gerist ekki mikið nýrra en það að geta kosið fólk í stað flokka,“ segir Ásgeir.