NTC

„Ásetningur plötunnar er að heiðra rætur mínar“

„Ásetningur plötunnar er að heiðra rætur mínar“

Stefán Elí er tónlistar- og myndlistarmaður, fæddur og uppalinn á Akureyri. Lesendur fengu að kynnast honum örlítið þegar Kaffið kíkti til Grímseyjar en nú fáum við að skyggnast betur í þau verkefni sem hann tekur sér fyrir hendur.

Fjölbreytt tónlist

Á ferlinum hefur hann gefið út 4 breiðskífur ásamt fjölmörgum smáskífum og hefur tónlist hans náð yfir 2 milljón streymum á tónlistarveitum. Hann vinnur með fjölbreyttu tónlistarfólki víða úr heiminum sem lagahöfundur, hljóðtæknimaður, upptökustjóri, söngvari og hljóðfæraleikari. Auk þess að hafa komið fram í öllum landshlutum Íslands hefur hann spilað á tónlistarhátíðum bæði í Gvatemala og á Bali. Tónlistarsköpun hans að eigin sögn er víðtæk, og skapar hann t.d. slökunartónlist, rappar, syngur, leikur á fjölbreytt hljóðfæri, tekur upp, hljóðblandar o.fl.

Komnar eru þrjár smáskífur af tilvonandi plötu hans, „Tíðni sálarinnar“ – Ævafornir siðir, Hlustaðu á hjartað og Leyfðu þér að sjást.

„Ásetningur plötunnar er að heiðra rætur mínar og gefa til baka gjöf til okkar fallega lands, Íslands. Tónlistin er uppbyggjandi og textarnir jákvæðir. Ég vinn alla tónlistina frá grunni ásamt því að hljóðblanda lögin. Pabbi minn kær, Haukur Pálmason, hljómjafnar (masterar) verkefnið. Hér má hlusta á lögin þrjú sem komið hafa út.“

Nýverið hefur hann einnig gefið út plötuna Divine Harmony sem er hugleiðslu- og slökunarplötuna ásamt hip-hop plötu að nafni Peace Vibration sem hann vann sjálfur frá grunni.

Lifandi og litrík myndlist

Síðustu þrjú ár hefur hann starfað sem myndlistarmaður og haldið myndlistarsýningar í
Reykjavík, Akureyri, Gvatemala og á Bali.

„Myndlist mín er litrík og lifandi og tala margir um að hún geisli út kærleiksorku og gleði. Málverkin mín hafa eignast heimili víða og tek ég reglulega að mér verkefni þar sem ég skapa persónuleg málverk fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Ég hef mjög gaman af formfræði og helgum hlutföllum. Í minni sköpun held ég lifandi þeim ásetningi að heiðra náttúru og jörð ásamt því að skapa fegurð og hamingju.“

Friðarathafnir og kakóseremóníur

Samhliða því að starfa sem tónlistar- og myndlistarmaður, starfar hann mikið við friðarathafnir. Í öllum hans athöfnum leikur tónlist lykilhlutverk og er kjarnaþáttur í upplifuninni. Ásamt því býður hann fólki upp á ljúffengt, hreint og lífrænt kakó sem er nærandi heitur drykkur, hlaðinn af steinefnum og andoxunarefnum.

„Margir upplifa ró, slökun, aukna sköpunarorku, vellíðan og tengingu þegar þeir drekka kakó. Í athöfnunum leiði ég tónferðalag þar sem fólk fær að leggjast niður í slökun og ég leik á fjölbreytt hljóðfæri í bland við náttúrulífs-upptökur og söng.“

„Ég hef haldið fjölmargar athafnir víða fyrir Norðan t.d. á Akureyri, í Grímsey, í Skagafirði og á Svalbarðseyri, ásamt því að að halda tvær athafnir á Eskifirði, eina í Hrafnabjörgum, eina í Reykjavík og eina á Ísafirði. Bæði býð ég upp á hóp- og einstaklingsathafnir. Athafnirnar hjálpa til við að sleppa stressi, ótta, kvíða og þunglyndi. Mitt markmið er að hjálpa fólki að auka heilsu, gleði, jafnvægi, sjálfstraust, tengingu og hamingju í sínu lífi.“

Hægt er að fylgja Stefán Elí á Instagram, Spotify og hægt er að hafa samband á stefanelih@gmail.com til þess að bóka hann fyrir tónleika, veislur, athafnir, samkomur o.s.frv.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó