Þórsarinn Aron Einar Gunnarsson var valinn í fyrsta landsliðshóp Arnars Gunnlaugssonar fyrir íslenska karlalandsliðið í fótbolta. Aron Einar verður þó ekki landsliðsfyrirliði áfram í landsliði Arnars, ákvörðun sem hann segist skilja.
Aron Einar segir í löngu viðtali við fréttastofu RÚV að hann sé í góðu formi og klár í slaginn. Íslenska liðið mun mæta Kósóvó í tveimur leikjum í umspili Þjóðadeildarinnar síðar í mánuðinum.
„Ég hef verið að spila vel í Meistaradeildinni hér í Asíu og æfa 100% þannig að ég er klár. Ég hef í raun sjaldan verið hungraðri en akkúrat þessa stundina í að sýna mig og sanna,“ segir Aron.
Orri Óskarsson er nýr landsliðsfyrirliði Íslands og tekur við hlutverki Arons sem hefur leikið flesta af sínum 104 landsleikjum sem fyrirliði.
„Ég vissi alveg að hann hafði hugmyndir um annað og eins og hann útskýrði líka vel að ég þarf ekki fyrirliðaband til að vita að ég er leiðandi í þessum hóp. Þetta er svipuð staða og ég var í þegar ég tók við bandinu og Orri og Hákon vita það að ég er til staðar fyrir þá þegar þeir vilja. Ég held þetta sé rétt þróun. Þetta kannski lætur þá axla meiri ábyrgð og ég var hlyntur þessari hugmynd frá byrjun,“ segir Aron um nýtt hlutverk sitt í landsliðinu.