beint flug til Færeyja

Aron Pálsson nýr hótelstjóri Hótel Kea

Aron Pálsson nýr hótelstjóri Hótel Kea

Aron Pálsson hefur verið ráðinn hótelstjóri Hótel Kea, eftir sex ár sem hótelstjóri Hótel Norðurlands. Aron er borinn og barnfæddur Norðfirðingur en fluttist til Akureyrar ásamt fjölskyldu sinni 7 ára gamall og gekk hér í skóla. Aron útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2010 en stundaði svo nám við Háskólann á Akureyri þar sem hann útskrifaðist með BSc gráðu í Viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðssetningu.

Markmiðið að vera hótelstjóri frá átta ára aldri

Aron hefur starfað hjá Keahótelum í 15 ár, eða allt frá 15 ára aldri þegar hann byrjaði sem uppvaskari og starfsmaður við töskuburð á Hótel Kea. Síðan þá hefur Aron starfað í mörgum störfum innan hótelanna tveggja á Akureyri, sem kokkur í eldhúsi til þriggja ára, starfsmaður í móttöku á dag- og næturvöktum á Hótel Norðurlandi, sem rekið er af Keahótelum, og síðar sem gestamóttökustjóri þar. Árið 2014 tók Aron við sem hótelstjóri Hótel Norðurlands meðan hann kláraði nám sitt í viðskiptafræði við HA. Árið 2018 bætti hann við sig stöðu aðstoðarhótelstjóra á Hótel Kea og Hótel Gíg samhliða hótelstjórastarfi Hótel Norðurlands.

„Það má í rauninni segja að ég hafi verið í hótelbransanum frá því að við fluttum til Akureyrar. Mér er óspart sögð sagan af því þegar ég stóð fyrir aftan afgreiðsluborðið á Hótel Kea 8 ára gamall og tilkynnti þáverandi starfsmönnum að einn daginn ætlaði ég að verða hótelstjóri hér. Ég er bara að fylgja því eftir,“ segir Aron léttur í bragði. „Ég er bara afar heppinn að hafa átt möguleika á að vinna mér inn þessa reynslu með námi á því sem ég hef brennandi áhuga á og ég er mjög spenntur fyrir framhaldinu,“ segir Aron í samtali við kaffid.is.

Þrítugur með þrjú börn á þremur árum

Aron segir ljóst vera að heilmikið verkefni er framundan en hann er vel undirbúinn og segir skipulag skipta þar mestu máli. Stefnan er tekin á að tæknivæða hótelið talsvert þar sem þægindi bæði gesta og starfsmanna verður í fyrirrúmi. Þá segir hann tæknivæðingu nauðsynlega þróun fyrir hótelið til að takast á við nýjar kröfur og standa undir þeim staðli sem Hótel Kea er þekkt fyrir. „Ég hef gaman að því að fara framúr væntingum gesta og það er einnig markmið. Það að senda ánægða gesti frá okkur er ein af undirstöðunum fyrir góðum rekstri og því nauðsynlegt að hafa þolinmæði gagnvart mismunandi kröfum og bæta sig sífellt í þeim efnum.“

Aron er fæddur árið 1990 og á þrjú börn með Elvu Katrínu Bergþórsdóttur og segir það skipta höfuðmáli að vera með gott bakland í krefjandi starfi sem þessu.

„Ég hef verið svo lánsamur að eignast 3 börn á 3 árum með dásamlegum maka þar sem við höfum þurft að skipuleggja okkar líf vel og sýna mikla þolinmæði. Styrkleiki og þroski vegna þess álags sem því fylgir hefur klárlega hjálpað mér í vinnu þar sem ég hef lært að forgangsraða og nýta tímann vel. Þetta er ekki hægt nema að þú sért með gott fólk í kringum þig hvort sem það er maki og fjölskylda eða starfsfólk sem þú ert með í vinnu. Og ég er svo ótrúlega heppinn að hafa það með mér í þessu krefjandi verkefni,“ segir Aron.

VG

UMMÆLI

Sambíó