Ef rýnt er í forn skjöl frá höfuðstað Norðurlands má sjá að hann kemur fyrir í heimild frá árinu 1562. Um er að ræða dóm yfir konu á Akureyri sem svaf hjá manni án þess að hafa giftingarvottorð. Engum sögum fer af manninum. Kannski var hann ,,foreigner” hver veit? Víst er að heimsóknir erlendra ferðamanna til Íslands voru tíðar fyrr á öldum þar sem þeir skráðu niður eitt og annað er bar fyrir augu þeirra. Fyrsta ferðalýsing erlends manns á Íslandi, að talið er, kom einmitt út á bók nokkrum mánuðum áður en fyrrnefndur dómur yfir blessaðri konunni á Akureyri féll.
Maður að nafni Gories Peerse orti brag, Van Ysslandt (Um Ísland), og gaf út árið 1561 í Hamborg í Þýskalandi. Bragurinn hefur að geyma nokkuð ítarlega lýsingu á upplifun Peerse af Íslandi. Í bókinni segist hann hafa komið í höfn í öllum landshlutum. Það skyldi þó ekki vera að hann hafi komið við á Akureyri og gerst brotlegur við íslensk lög? Sennilega verður það að teljast frekar langsótt.
Í ljóðinu sem hann orti segir hann frá lúsugum Íslendingum sem víli ekki fyrir sér að borða matinn þó hár eða lús lendi í honum, þeir urri og rymji eins og hundar og bjarndýr, sofi í þvögu og leiti að dauðu fé og úldnum fiski sér til matar.Frændunum Guðbrandi Þorlákssyni Hólabiskupi og Arngrími (lærða) Jónssyni blöskraði sú umfjöllun sem samlandar þeirra fengu hjá útlendingnum Peerse og öðrum erlendum ferðamönnum sem fjölluðu um Ísland á niðrandi hátt. Árið 1593 kom út bókin Brevis commentarius de Islandia. Arngrímur skrifaði bókina með formála eftir Guðbrand. Í bókinni mótmælir Arngrímur harðlega þeirri illu meðferð sem Ísland og Íslendingar fá í hinum ýmsu ritum útlendinga. Markmiðið var að kveða niður níð og leiðrétta rangfærslur sem birst höfðu á opinberum vettvangi erlendis. Tekur hann Gories Peerse sérstaklega fyrir í bókinni.
Nú 425 árum síðar er von á „útlendingi“ (Foreigner) til landsins. Bresk-ameríska rokkbandið mun halda tónleika í Laugardalshöll og flytja alla sína helstu slagara. Allar áhyggjur af mögulegum níðkvæðum meðlima hljómsveitarinnar um land og þjóð ættu að vera ástæðulausar. Ísland er komið á kortið hjá erlendum skemmtikröftum og því engin þörf fyrir varnarskrif Arngríms lærða.
Samband Arngríms við útlendinga nær þó út fyrir gröf og dauða eins og meðlimir Foreigner ættu að vita. Hvernig má það vera? Ítarlegri umfjöllun má finna á heimasíðu Grenndargralsins.
UMMÆLI