NTC

Arna Vals og Raisa Foster sýna í Finnlandi

Arna Vals og Raisa Foster sýna í Finnlandi

Arna Valsdóttir (Ísland) og Raisa Foster (Finnland) sýna nýja vídeó/hljóðinnsetningu í Gallerýi Laikku Menningarmiðstöðinni í Tampere, Finnlandi. Í verkinu vinna þær rýmisverk úr myndböndum sem þær hafa unnið í sameiningu frá árinu 2017 og byggja þau á þrem ferðalögum um Ísland og nýjum hljóðupptökum frá Finnlandi.

Innsetninguna vinna þær beint inn í rými Laikku og leikur arkitektúr byggingarinnar stórt hlutverk. Sýningin býður áhorfendum að taka þátt í skynrænu ferðalagi þeirra Örnu og Raisu. Arna G. Valsdóttir og Raisa Foster kynntust þegar þær unnu sem listrænir stjórnendur í dansi og myndlist í “Nordisk Ljus 2014” listrænu ungmennaverkefni sem var opinber Menningarviðburður Norðurlandanna 2014, fjármagnaður af Norræna Menningarsjóðnum.

Í kjölfar þessa samstarfs vildu þær Arna, sem er vídeólistamaður og Raisa sem er danshöfundur láta reyna á hvort þær fyndu snertiflöt sem listamenn. Árið 2017 ákváðu þær síðan að hittast á Íslandi og byrjuðu það ferðalag sem þær nú gefa innsýn í.  

„Í upphafi tókum við þá ákvörðum að eiga sem mest orðlaus samskipti í rannsóknarþætti verkefnisins. Við vildum nota eigin líkama og skynjun til þess að kanna umhverfið, láta þessa þætti leiða verkið og lögðum í leiðangur um landið með skynjunina eina að vopni, jú og tökuvélarnar. Báðar vinnum við með mannslíkamann, hreyfingu, kyrrstöðu og snertifleti við umhverfið í verkum okkar og fundum ákveðinn samhljóm í því að nota snertiskynið til þess að kanna viðfangsefnið hvort sem um var að ræða landið, náttúruöflin, dýr eða byggingar. Við lögðum okkur fram um að veita því athygli hvert athygli hinnar beindist á ferð okkar og notuðum myndbandstökuvélar til að fanga augnablik skynjunarinnar.“

Tilviljanakenndir samfundir við t.d. mosa, flugu, fjall, kú og baðkar eru nú sýndir sem brot úr ferðalagi þeirra Örnu og Raisu. Verkið Tacit Gaze, sem þýða má sem Þögul athygli er einkonar mósaíkverk af upplifunum listamannanna og býður áhorfandanum inn í orðlaus samskipti við umhverfið, menn og önnur dýr.

Sýningin opnar 1. október klukkan 18.00 og er opin frá 1. til 24. október. Verkefnið er styrkt af Myndlistarsjóði og Menningarsjóði Akureyrar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó