Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir setur upp vinnustofusýningu í Kompunni á Siglufirði, dagana 12-17. desember. Sýningin verður opin frá kl. 14.00 – 17.00 þegar skilti er úti til 17. desember að fyrstu Aðventuhelginni undanskilinni. Léttar veitingar í boði á opnun og öll velkomin.
„Í desember ár hvert set ég upp vinnustofusýningu í Kompunni. Þar má sjá það allra nýjasta sem ég hef verið að fást við hverju sinni. Í ár verða það akrílmálverk á striga sum kláruð en önnur á vinnslustigi. Og eins og með annað hráefni sem ég nota til listsköpunar, er ég að endurnýta striga sem áður hefur verið málað á.“
„Í upphafi ferils míns var ég aðallega að miðla list minni með málverki en færðist síðan í aðra miðla. Málverkið hefur samt ávallt fylgt mér og löngunin og þörfin fyrir að mála á striga verið til staðar. Nú er svo komið að uppsafnaður fjöldi málverka bæði mannlífsmynda og óhlutbundinna er orðið tilefni til sýningar.
Fjölbreytileiki mannsins er umfjöllunarefnið, sagan, tilfynningar, reynsla og væntingar. Verkin eru unnin jafnt í vinnustofudvöl í Danmörku og á vinnustofum mínum í Freyjulundi og Alþýðuhúsinu,“ segir Aðalheiður á vef Fjallabyggðar.
UMMÆLI