Arkitektastofan Kurt og Pí fékk byggingarlistarverðlaun fyrir endurbætur á ListasafninuMeðfylgjandi mynd var tekin í Listasafninu á Akureyri í gær. Frá vinstri: Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar Akureyrarstofu, Kristján Edelstein fyrir hönd Pálma Gunnarssonar, Kristín Guðmundsdóttir fyrir hönd aðstandenda Ágústar Þórs, Valgerður H. Bjarnadóttir, Ingibjörg Auðunsdóttir fyrir hönd Zontaklúbbsins Þórunnar Hyrnu, Steinþór kári Kárason fyrir hönd Kurt og Pí ehf., Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir fyrir hönd Zontaklúbbs Akureyrar, Elínborg Loftsdóttir, Bergljót Þrastardóttir fyrir hönd AkureyrarAkademíunar, Michael Jón Clarke, Þórgnýr Dýrfjörð deildarstjóri Akureyrarstofu.

Arkitektastofan Kurt og Pí fékk byggingarlistarverðlaun fyrir endurbætur á Listasafninu

Eins og Kaffið hefur greint frá var Vorkoma stjórnar Akureyrarstofu haldin í gær þar sem ýmis verðlaun og viðurkenningar voru veitt ásamt því að bæjarlistamaður Akureyrar var tilkynntur, sem að þessu sinni var Pálmi Gunnarsson, tónlistarmaður.

Jafnframt voru veitt byggingarlistarverðlaun og féllu þau í hlut arkitektastofunnar Kurt og Pí ehf. fyrir stækkun og endurbætur á Listasafninu á Akureyri. Meginmarkmið verkefnisins var að skapa heilsteypta listasafnsbyggingu með sýningarrýmum af bestu gerð, auk þess sem allur aðbúnaður starfsfólks sem og aðstaða fyrir umsjón og meðhöndlun listaverka var bætt. Þetta þykir hafa tekist afar vel og unnið með virðingu úr ágætu höfundarverki Þóris Baldvinssonar og stuðlað með því að húsavernd og viðgangi góðrar byggingarlistar.

Heiðursviðurkenningar Menningarsjóðs

Akureyrarstofa veitti að auki heiðursviðurkenningu Menningarsjóðs sem er veitt einstaklingum sem hafa með framlagi sínu stutt við og auðgað menningarlíf bæjarins. Í ár voru þrír einstaklingar fyrir valinu. Tónlistarmaðurinn Michael Jón Clarke, fyrir þátt sinn í öflugu tónlistar- og menningarlífi Akureyrarbæjar; Elínborg Loftsdóttir tónmenntakennari og kórstjóri, fyrir mikilvægt framlag til tónlistarþátttöku og tónlistaruppeldis ungra Akureyringa. Þriðja heiðursviðurkenningin er helguð minningu Ágústar Þórs Árnasonar mannréttindafrömuðar, skólamanns og listunnanda sem féll frá nýverið. Hann lagði mikið til menningar- og skólamála og lagði sig sérstaklega fram um að færa heimspeki og heimspekilega umræðu nær almenningi.

Viðurkenningar fyrir framlag til jafnréttismála á Akureyri

Forseti bæjarstjórnar, Halla Björk Reynisdóttir, veitti síðan fjórar jafnréttisviðurkenningar fyrir framlag til jafnréttismála á Akureyri. Viðurkenningarnar hlutu Akureyrarakademían, Zontaklúbbur Akureyrar, Zontaklúbburinn Þórunn Hyrna og Valgerður H. Bjarnadóttir.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó