Á annað hundrað manns fyldust með beinni útsendingu á vefnum í gær þegar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti niðurstöður hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík fyrir 60 íbúa. Alls bárust 32 tillögur í keppnina sem var að öllu leyti stafræn og því við hæfi að ljúka henni með sama sniði.
Í samkeppnislýsingu var lögð áhersla á að keppendur hefðu umhverfissjónarmið og vistvæna hönnun að leiðarljósi við útfærslu byggingar og lóðar. Dómnefnd lagði sérstaka áherslu á heimilislegt yfirbragð tillagnanna og þægilegt vinnuumhverfi þar sem byggingin þarf að vera hvoru tveggja í senn, heimili og vinnustaður.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gerði þessar mikilvægu kröfur að umtalsefni þegar hún ræddi við þátttakendur við verðlaunaathöfnina: „Hönnun hjúkrunarheimilis sem fyrst og fremst er heimili ólíkra einstaklinga með heila ævi í farteskinu en einnig vinnustaður annarrar kynslóðar, þarf að sameina þetta allt; kynslóðir og margbreytileika, einkalíf og vinnu. Heimilið þarf að standa undir nafni sem heimili, styðja einstaklinginn til virkni á eigin forsendum og vera honum það skjól sem hann hefur þörf fyrir í daglegu lífi.“
Í umsögn dómnefndar um verðlaunatillöguna sem féll í skaut Arkís í samstarfi við Mannvit, segir meðal annars: „Skipulag sambýliseininga styður við heimilisbrag með vistlegum einkarýmum fyrir hvern íbúa sem snúa flest að bænum og frábæru útsýni yfir Skjálfanda og Kinnarfjöll. Starfsaðstaða er mjög góð þar sem þjónusturými eru miðlæg og vegalengdir stuttar innan hverrar deildar. Heimiliseiningar eru allar jafnstórar og hönnun þeirra auðveldar mönnun og flæði milli þeirra, þ.m.t. yfirsýn yfir heimilið í heild og starfsfólk nýtist m.a. betur á nóttunni. Heimilið er bjart, auðvelt aðgengi er út undir bert loft frá setustofum til að njóta útsýnis og veðurs og tilhögun einkarýma gerir auðvelt fyrir íbúa að rata í herbergi sín.“
Heimilið verður alls 4.400 fermetrar að stærð. Næst verður samið við hönnuði byggingarinnar og ráðist í fullnaðarhönnun byggingarinnar. Áætlað er að byggingaframkvæmdir hefjist á næsta ári og að það verði tilbúið fyrir íbúa sína árið 2023.
Ríki greiðir 85% af framkvæmdakostnaði við bygginguna, en sveitarfélagið Norðurþing það sem uppá vantar. Kostnaður við bygginguna er áætlaður um þrír milljarðar króna. Umsjón með verkefninu er á hendi Framkvæmdasýslu ríkisins.
Í dómnefnd hönnunarsamkeppninnar sátu Guðlaug Einarsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu sem var formaður, Anna Birna Jensdóttir, forstjóri Sóltúns og Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings. Keppnin var haldin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og sátu í nefndinni fyrir hönd félagsins þeir Guðmundur Gunnarsson og Jakob E. Líndal.
UMMÆLI