Síðasta miðvikudag var því fagnað að ár er liðið frá komu sýrlensku fjölskyldnanna til Akureyrar. Hingað komu fjórar fjölskyldur, 23 einstaklingar, frá Líbanón þar sem þær höfðu verið eftir flótta frá Sýrlandi.
Óhætt er að segja að þeim hafi gengið vel að feta sig í nýjum heimkynnum þrátt fyrir að ýmislegt sé erfitt að kljást við, ekki síst að læra íslenskuna. Börnin eru almennt orðin nokkuð sleip í íslensku, gengur vel í skóla og taka þátt í íþróttum og öðru tómstundastarfi. Sumt fullorðna fólkið er komið í vinnu.
Fjölmargir einstaklingar, félög og fyrirtæki hafa lagt hönd á plóginn til að aðstoða fjölskyldurnar. Stuðningsfjölskyldur á vegum Rauða krossins hafa gegnt þar lykilhlutverki. Almennt hafa bæjarbúar tekið fjölskyldunum vel og Sýrlendingarnir nefna sérstaklega að þeir hafi fundið frá fyrsta degi að þeir væru velkomnir.
Til að fagna ári frá komu þeirra stóðu Akureyrarbær og Rauði krossinn að samkomu miðvikudaginn 18. janúar. Boðsgestir voru, auk sýrlensku fjölskyldnanna, sjálfboðaliðar og starfsmenn sem hafa verið í miklum tengslum við fólkið, bæjarfulltrúar og bæjarstjóri.
Undir lok mánaðarins er von á einni fimm manna fjölskyldu til viðbótar. Vegna tengsla hennar við eina fjölskylduna sem kom í fyrra, koma þau hingað í stað þess að fara til Árborgar, Hveragerðis eða Reykjavíkur eins og aðrir í þeim hópi sýrlenskra flóttamanna sem von er á frá Líbanon.
Ánægjulegt er að geta þess að á síðustu vikum hafa tvö kornabörn bæst í hóp þeirra Sýrlendinga sem komu 19. janúar 2016, þ.e. eitt barn fæddist í desember og annað þann 18. janúar.
UMMÆLI