Andrésar Andar leikarnir hefjast í dag

Andrésar Andar leikarnir á skíðum verða haldnir af Skíðafélagi Akureyrar í Hlíðarfjalli um helgina. Þetta er í 43. skipti sem leikarnir fara fram en þeir hefjast í dag, 18. apríl og standa til 21. apríl.

Í ár munu 880 keppendur á aldrinum 4-15 ára taka þátt í leikunum sem gerir þá að stærsta skíðamóti landsins. Börnunum fylgja þjálfarar, fararstjórar, foreldrar og systkini og má því gera ráð fyrir að um 2500-3000 manns sæki leikana.

4 ára börnum verður boðið að taka þátt í leikunum í ár í fyrsta skipti. Þau munu taka þátt í leikjabraut þar sem aðalatriðið er að vera með og hafa gaman. Andrésarleikarnir eru fjölskylduhátíð skíðamanna og þessi liður er hluti af því að leyfa yngri systkinum keppanda að vera með í skemmtuninni.

Þrátt fyrir að snjórinn sé að minnka í Hlíðarfjalli eru aðstæður til skíðaiðkunar með góðu móti.  Búast mótshaldarar við miklu fjöri á leikunum í ár.

Líflegur fréttaflutnignur verður á Facebook síðu leikanna auk þess sem úrslit og fleiri fréttir verða birt á www.skidi.is, heimasíðu Skíðafélags Akureyrar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó