Í dag veitti Akureyrarbær viðurkenningar vegna mannréttindamála í þremur flokkum; í flokki einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja og félagasamtaka. Neðst í fréttinni má sjá myndband þar sem er rætt um og við verðlaunahafa.
Stofnunin sem hlaut viðurkenningu að þessu sinni er Amtsbókasafnið á Akureyri, Femínistafélag Menntaskólans á Akureyri, FemMA, hlýtur viðurkenningu í flokki félagasamtaka og sá einstaklingur sem hlýtur mannréttindaviðurkenningu Akureyrarbæjar 2023 er Fayrouz Nouh fyrir að miðla reynslu sinni sem flóttamaður, fræða, rannsaka og opna umræðu um menningarlegar hindranir flóttakvenna.
Í umsögn Höllu Bjarka Reynisdóttir, formanns bæjarráðs, um verðlaunahafa segir að Amtsbókasafnið á Akureyri hafi hlotið verðlaunin fyrir að auka hinsegin sýnileika í samfélaginu.
„Það hefur safnið gert með margvíslegum hætti, m.a. með því að flagga hinsegin fánum, dregið fram hinsegin bækur og lagt fyrir gesti hinsegin þrautir. Þá standa dyr safnsins öllum opnar og það hefur í gegnum tíðina veitt ýmsum jaðarhópum vettvang og aðstöðu í húsakynnum sínum.“
FemMA – Femínistafélag Menntaskólans á Akureyri hlýtur viðurkenninguna fyrir að vinna gegn staðalímyndum kynjanna.
„Félagar FemMA hafa í þessu skyni staðið fyrir fjölbreyttum viðburðum í skólanum, bæði ein sér og í samstarfi við önnur félög. FemMA hefur til að mynda fengið Öfga til að halda fræðslufund, tekið þátt í Gleðidögum í skólanum og staðið fyrir mótmælum gegn kynferðisofbeldi í samstarfi við PrideMA sem er hinseginfélag MA,“ skrifar Halla.
Fayrouz Nouh hlýtur viðurkenninguna fyrir að miðla reynslu sinni sem flóttamaður, fræða, rannsaka og opna umræðu um menningarlegar hindranir flóttakvenna.
„Fayrouz var í hópi flóttamanna sem kom frá Sýrlandi til Íslands árið 2016. Hún, eins og annað flóttafólk, kom inn í nýtt ókunnugt samfélag á Akureyri og þurfti að mæta ýmsum áskorunum sem því fylgja. Hún hóf háskólanám á Akureyri, stundar nú doktorsnám við Háskóla Íslands og hefur samhliða náminu komið fram í fjölmiðlum og haldið fjölmörg erindi opinberlega m.a. um múslimakonur á vinnumarkaði og aðlögun flóttakvenna á landsbyggðinni.“