Gæludýr.is

Alþjóðlegi sjálfsvígsforvarnardagurinn 10. september – Aðeins um mínar sjálfsvígshugsanir og vanlíðan

Alþjóðlegi sjálfsvígsforvarnardagurinn 10. september – Aðeins um mínar sjálfsvígshugsanir og vanlíðan

Ég fór að leika trúð um 12 ára aldur til að fela mína vanlíðan. Mig langaði að deyja og þorði ekki að tala um mína líðan. Ég var hræddur um að vera dæmdur á þeim tíma þar sem allir áttu að vera svo sterkir og fáir vissu hvað geðröskun var og við dæmdum það sem við þekktum ekki.

Ég er ekki viss um að ég hefði lifað af hefði verið sagt við mig að ég ætti bara að rífa mig upp og hætta þessu væli. Þessi vanlíðan er skelfileg sem ég myndi ekki óska mínum versta óvini. Ég kveið því að vakna á hverjum degi og vera innan um annað fólk. Mér leið líka illa innan um fjölskylduna og forðaðist margt þar og í grunnskóla sem öðrum þykir sjálfsagt.

Myrkrið og svartholið er mikið og ég notaði vímuefni til að flýja, deyfa og drekka í mig kjark. Sjálfsvígshugsanir nær daglega og flótti sem þáttakandi einkenndi mitt líf og vanlíðan eftir því. Ég var orðinn 38 ára gamall árið 2005 og staddur á verkjasviði á Kristnesi í eyjarfirði þegar ég fékk fræðslu og bæklinga um kvíða, félagsfælni og þunglyndi.

Það varð upphaf að bættum lífsgæðum sem ég bý að í dag. Bæklingarnir sögðu mína sögu sem útskýrðu afhverju mér hafði liðið svona illa og falið mína vanlíðan síðan ég var krakki og með sjálfsvígshugsanir nær daglega. Bæklingarnir útskýrðu að flóttinn við að takast á við lífið var ekki mér að kenna.

Það voru ástæður fyrir myrkrinu og svartholinu sem hægt var að vinna með. Ég ákvað strax á Kristnesi að leita mér hjálpar og horfa fram á veginn með opnum huga og jákvæðni að leiðarljósi. Frá 2005 hef ég unnið vel í mínu lífi með hjálp fagmanna og fólks með reynslu af geðröskun. Ég hef klárað 3 skóla og útskrifaðist síðast sem félagsliði vorið 2016. Ég er einn af stofnendum Grófarinnar ásamt fleiru góða fólki fagmanna og fólki með reynslu af geðröskun.

Grófin geðverndarmiðstöð á Akureyri hefur unnið vel með samfélaginu, Háskólanum sem öðrum úrræðum í kerfinu.
Það sýnir að samvinna fólks með reynslu af geðröskun og fagfólks geta unnið vel saman fyrir fólkið sem þarf hjálp og til að efla forvarnir í litlu samfélagi. Samvinna er besta meðalið til að efla forvarnir og auka þekkingu svo það geti orðið öðrum til hjálpar. Ég hef farið í 4 ár með öðru góðu fólki úr Grófinni með geðfræðslu í grunn- og framhaldsskóla á Akureyri sem nærsveitarfélög með góðri samvinnu forvarnarfulltrúa Akureyrarbæjar.

Geðfræðslan hefur heppnast mjög vel og eru ungmenni sem starfsfólk mjög þakklát að fá fólk sem talar frá hjartanu um sína persónulegu reynslu og bjargráð. Ég veit sjálfur ef einhver kæmi í 9. bekk í dag og talaði um félagsfælni og segði sína sögu myndi það útskýra mína líðan. Líðan sem væri ekki mér að kenna heldur væri hægt að fá hjálp. Hjálp við til að takast á við lífið eins og aðrir fá hjálp við ef eitthvað líkamlegt bjátar á enda hausinn hluti af líkamanum.
Ég hef opnað mig í fjölmiðlum svo fólk átti sig á alvarleikanum og mikilvægi þess að auka þekkingu. Mér finnst mikilvægt að fólk viti af úrræðum sem hægt er að leita til.

Forvarnir fagmanna og fólks með reynslu af geðröskun eru mikil verðmæti fyrir samfélagið og geta haft mikil áhrif saman. Það eru nefnilega margir í samfélaginu sem þora ekki að taka skrefið og ég þekki það vel en ég sé ekki eftir því þegar ég sá hvað hafði stjórnað mínu lífi.

Ég er ekki fórnarlamb heldur manneskja sem lifði af og nýti þá reynslu til góðs í dag og fyrir framtíðina. Gleymum ekki aðstandendum sem hafa þurft að þola mikið og þurfa hjálp til að takast á við lífið. Aðstandendur eru mikil
verðmæti fyrir samfélagið og þurfum að hlusta á þau til að gera betur. Það skiptir máli að standa saman í samfélaginu og styðja við aðstandendur

Akureyrarkirkja 10.september

Samhygð, Pieta sjálfsvígsforvarnarsamtök og Grófin geðverndarmiðstöð standa fyrir
minningarstund um þau sem fallið hafa fyrir eigin hendi í Akureyrarkirkju kl. 20:00.
Bænastund, sr. Stefanía Steinsdóttir og svo er reynslusaga aðstandanda frá Henný Lind
Halldórsdóttir.Tónlist og söngur Ívan Mendez, Eymundur mun ræða um forvarnir og
að lokum munum kveikja á kertum til minningar um þau látnu. Kaffi og spjall á eftir í
fundarherbergi Safnaðarheimilisins og allir hjartanlega velkomnir.

Eymundur L.Eymundsson ráðgjafi og félagsliði.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó